Skoðun

Hvað er að í skólastarfinu?

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar
Árangur nemenda í grunnskólum landsins og gæði skólastarfs koma reglulega til umræðu, ekki síst þegar niðurstöður í alþjóðlegum samanburði valda okkur vonbrigðum. Enn og aftur er spurt: „Hvað er að í skólakerfinu?“ Eðlilegt og sjálfsagt er að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að gera betur enda á skólastarf að vera í sífelldri þróun.

Í Hafnarfirði var árangur hafnfirskra nemenda tekinn til skoðunar í upphafi kjörtímabilsins. Fenginn var utanaðkomandi aðili til að greina stöðuna og leggja fram tillögur til úrbóta. Metnaðarfullt læsisverkefni var nýhafið og ákveðið var að bæta stærðfræði við verkefnið. Þetta hefur þegar skilað góðum árangri.

Fljótlega skein þó í gegn hvert aðalviðfangsefnið var eins og umræðan í landinu undanfarin misseri hefur einnig staðfest. Álag á kennara er oft óbærilegt og að „skóli án aðgreiningar“ er því miður ekki að virka sem skyldi.

Ný nálgun í þverfaglegu samstarfi

Fyrir nokkru hóf fræðslusvið Hafnarfjarðar ítarlega vinnu með kennurum og skólastjórnendum annars vegar og á milli fagsviða bæjarins hins vegar. Markmiðið var að leita leiða til að bæta aðstæður í innra starfi skóla, styðja við kennara og minnka álag. Einnig að koma á þverfaglegu samstarfi félags- og fræðsluþjónustu með það í huga að koma fyrr að málefnum barna sem takast á við fjölbreyttan vanda, hvort sem hann er félagslegur, heilbrigðistengdur eða námslegur, áður en vandinn er jafnvel orðinn illviðráðanlegur.



Brýnast væri að tryggja að þjónusta við alla nemendur verði fullnægjandi til að allir geti náð náms­árangri í samræmi við eigin getu í skóla án aðgreiningar. Þess vegna þyrfti að koma enn betur að stuðningi við börn með sérþarfir og minnka þannig truflun í kennslustundum.

Helstu hugmyndum úr þessari vinnu er verið að hrinda í framkvæmd. Stuðning sálfræðinga og kennsluráðgjafa í skólunum er verið að auka, markvisst samstarf fagaðila á milli sviða að hefjast og stutt er við kennara með fjárframlagi til þróunarstarfs og forystuhlutverka eins og C-hluti kjarasamnings gefur heimild til en fá sveitarfélög hafa nýtt.

Aðbúnaður bættur og viðhald aukið

Með ofangreindu eru fræðsluyfirvöld í Hafnarfirði að sýna mikið frumkvæði og vilja til nýbreytni í skólastarfi. En þó fyrst og fremst umhyggju fyrir börnunum okkar og bættu starfsumhverfi kennara. Auk þessara breytinga á áherslum innra starfs hefur aðbúnaður nemenda og starfsfólks verið bættur til muna. Tölvu- og tæknibúnaður hefur allur verið endurnýjaður, spjaldtölvum bætt inn í skólastarf og áhersla verið lögð á viðhald búnaðar og húsnæðis eftir uppsafnaða þörf. Á þessu ári verður bætt verulega í í þeim efnum. En áherslan sem heilsubærinn Hafnarfjörður setti fram í aðgerðaáætlun nýlegrar heilsustefnu, er fyrst og fremst á andlega líðan barna í samstarfi skóla og heimilis. Að stuðla að vellíðan barnanna okkar er það besta sem við gefum börnunum til að þau geti tekist á við viðfangsefni lífsins.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfjarðar­bæ, formaður bæjarráðs og fræðsluráðs






Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×