Innlent

Sigurður hlýtur virt jarðfræðiverðlaun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigurður Reynir Gíslason
Sigurður Reynir Gíslason Kristinn Ingvarsson
Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, fær Clair C. Patterson-verðlaun Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna (Geochemical Society) árið 2018. Verðlaunin eru ein af virtustu viðurkenningum sem veittar eru á sviði jarðefnafræði.

Sigurður hlýtur verðlaunin fyrir rannsóknir á bindingu koltvíoxíðs í bergi annars vegar og á áhrifum eldgosa á umhverfið hins vegar.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands að Clair C. Patterson-verðlaunin séu veitt fyrir tímamótarannsóknir í jarðefnafræði sem eru mikilvægar fyrir umhverfi og samfélag manna á jörðinni. Rannsóknirnar þurfa að hafa birst í einni vísindagrein eða safni greina í alþjóðlegum vísindaritum á síðastliðnum áratug.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Sigurður hafi í rúman áratug verið formaður Vísindaráðs CarbFix-verkefnisins svokallaða sem snýst um að binda koltvíoxíð (kotvísýring) í basaltjarðlögum. Að verkefninu hafa komið, auk Háskóla Íslands, Orkuveita Reykjavíkur, Columbia-háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð Frakklands. Fjöldi vísindamanna hefur tekið þátt verkefninu auk íslenskra og erlendra doktorsnema og hefur það vakið heimsathygli. Tilraunir rannsóknahópsins með bindingu koltvíoxíðs með niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun hafa gefið góða raun og binst koltvíoxíðið berginu á um tveimur árum en áður var talið að það tæki mörg þúsund ár. Væntingar eru um að aðferðin geti í framtíðinni nýst í baráttunni við hnattræna hlýnun en koltvíoxíð er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar.

Ellefu milljón tonn af brennisteinstvíoxíði

Sigurður hefur enn fremur rannsakað áhrif eldgosa á umhverfi á Íslandi, nú síðast gossins í Holuhrauni. Gosið spúði eitruðu brennisteinstvíoxíði yfir Ísland og stór svæði í Evrópu og reyndist magn þess á gostímanum um ellefu milljónir tonna. Styrkur brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti fór langt yfir heilsufarsmörk dögum og vikum saman á Íslandi en það var lán í óláni að mengunarinnar gætti mest á svæðum sem ekki eru í byggð. Þá leiddi tímasetning gossins, sem stóð að mestu að mestu að vetri til, til þess að brennisteinsmökkurinn barst hratt frá landinu, styrkur brennisteinstvíoxíðs lækkaði í andrúmslofti við dreifinguna og lítill hluti brennisteinstvíoxíðsins oxaðist í brennisteinssýru vegna takmarkaðrar birtu og raka mánuðina sem gosið stóð yfir.

Sigurður lauk BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins University í Bandaríkjunum árið 1985. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem fræðimaður og síðar vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans. Sigurður tekur við verðlaunum Geochemical Society á árlegri ráðstefnu jarðefnafræðisamtaka Bandaríkjanna og Evrópu sem haldin verður í Boston í Bandaríkjunum 12.-17. ágúst næstkomandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×