Innlent

Áttaði sig ekki á því fyrr en daginn eftir að hann hefði bjargað lífi eldri konu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jónas Már Karlsson var í dag valinn skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossi Íslands. Jónas starfar sem kokkur hjá fyrirtæki sem keyrir út heitan mat, meðal annars til ýmissa eldri borgara í Hafnarfirði. Þennan dag er Jónas tiltölulega nýlagður af stað með fullan bíl af matarsendingum þegar hann hringir bjöllunni hjá eldri konu.

„Ég er sem sagt að keyra út mat til eldri borgara í Hafnarfirði og ég kem heim til konu og hún er treg til að svara bjöllunni. En eftir smástund þá hleypir hún mér inn og þegar ég kem að hurðinni hjá henni þá stendur hún þar og bendir á bakið og kurrar í henni að hún eigi í erfiðleikum. Í hurðargatinu þá slæ ég aðeins í bakið á henni en ég sé það er ekki að duga. Þá fer ég með hana inn í íbúðina og held áfram að slá á bakið á henni og það er ekki nást,“ sagði Jónas í samtali við fréttastofu um björgunina í dag.

Hann sá að konan var að verða máttfarin og var farin að blána meira og meira í framan.

„Þá fer smá biti upp úr henni og ég held áfram í smástund en ég sé og finn alveg að það er ennþá fast í henni  hún er ekki að ná miklu lofti með og þá tók ég upp símann og hringdi á 112 og bað um sjúkrabíl og talaði um að það væri kona í andnauð.“

Sjúkrabíllinn kom svo skömmu seinna. Þeir tóku við að reyna að ná bitanum upp úr henni og eftir smástund fór Jónas aftur til vinnu að keyra út mat á fleiri staði.

„Það er ekkert fyrr en daginn eftir þegar aðstandendur hafa samband og segja að hún hafi verið flutt upp á spítala í neyð og hefði þurft að fara í aðgerð til að losa aðskotahlutinn að þetta svona síaðist inn að ég hefði bjargað lífi hennar,“ sagði Jónas.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá viðtal við Jónas um þar sem hann lýsir björguninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×