Innlent

Þurfa að ná tali af öku­manni rauðs smá­bíls í Reykja­nes­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Óhappið varð á Súlutjörn í Reykjanesbæ þann 31. janúar síðastliðinn um klukkan 18:20
Óhappið varð á Súlutjörn í Reykjanesbæ þann 31. janúar síðastliðinn um klukkan 18:20 vísir/eyþór
Lögreglan á Suðurnesjum hefur óskað eftir vitnum að umferðaróhappi þar sem ung stúlka hljóp á bíl sem ekið var á Súlutjörn í Reykjanesbæ þann 31. janúar síðastliðinn um klukkan 18:20.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum segir að unga stúlkan hafi slasast við óhappið og þarf lögreglan að ná tali af ökumanni bifreiðarinnar.

„Samkvæmt framburði þá er um að ræða rauðan smábíl, skráningarnúmer ekki vitað. Líkur eru á því að annar hliðarspegill bifreiðarinnar hafi skemmst við óhappið. Ökumaður bifreiðarinnar var ung kona á þrítugsaldri með dökkt hár. Ökumaðurinn stöðvaði til að kanna með ástand stúlkunnar en lögreglan var ekki kölluð á vettvang. Mikilvægt er að ná tali af ökumanni.

Þeir sem urðu vitni að árekstrinum eða geta gefið lögreglu frekari upplýsingar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 2200 en einnig má senda upplýsingar í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Suðurnesjum,“ segir í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×