Lífið

Dulúðin svífur yfir vötnum í Gallery Porti

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Snorri Helgason samdi nokkur lög upp úr Íslendinga sögunum og gaf þær út á glæsilegri vínyl-útgáfu.
Snorri Helgason samdi nokkur lög upp úr Íslendinga sögunum og gaf þær út á glæsilegri vínyl-útgáfu. Vísir/vilhelm
„Þrándur Þórarinsson myndlistarmaður gerði teikningar fyrir nýju plötuna mína, Margt býr í þokunni. Það er sem sagt ein teikning fyrir hvert og eitt lag á plötunni og fylgja þær með vínylútgáfunni af plötunni. Hann Þrándur er núna að setja upp sýningu á þessum teikningum og ætlar að selja stærri útgáfur af þessum listaverkum.“ 

„Ég ætla að mæta þarna og spila nokkur lög – þetta er nú í raun sýningin hans,“ segir tónlistarmaðurinn Snorri Helgason, en hann gaf út fyrir ekki svo löngu glænýja plötu, Margt býr í myrkrinu, með lögum sem hann vann upp úr íslensku þjóðsögunum. Þrándur Þórarinsson myndlistarmaður vann síðan teikningu fyrir hvert einasta lag og þeir félagar ætla að troða upp í Gallery Porti í kvöld klukkan 20.

Þarna verða til sýnis og sölu myndirnar eftir Þránd en þetta kvöld er eina skiptið sem þær verða til sölu og því er um að gera að mæta og tryggja sér eintak, eða bara koma og skoða. Myndirnar eru allar gífurlega þrungnar dulúð og spennu, líkt og plata Snorra – já og Íslendingasögurnar.

Sama kvöld er lokahóf sýningar Sigurðar Angantýssonar, Firningi. Þar er einnig um að ræða mjög dularfullar myndir þannig að það er kannski rétt að ráðleggja viðkvæmum að draga djúpt andann áður en haldið er inn í galleríið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×