Skoðun

Er ekki kominn tími til að tengja?

Katrín Ásta Jóhannsdóttir og Þórhallur Valur Benónýsson skrifar
Í ár eru 3695 nemendur skráðir á félagsvísindasviði HÍ. Allir eru þeir að sækja sér framhaldsmenntun og koma vonandi til með að útskrifast. Meginstefnan á Íslandi er sú að hér eigi að ríkja lágmarks atvinnuleysi og er því eðlilegt að áætla að þessir 3695 nemar komi til með að leita sér að vinnu eftir útskrift.

Til þess að skara fram úr og eiga möguleika á því að fá góða vinnu sem hentar menntun þessara nemenda strax að loknu námi þurfa þeir að öðlast forskot. Eins og staðan er í dag þá er hart barist um góðar stöður í atvinnulífinu.

Það er hægt að auðvelda nemendum töluvert fyrir og tengja þau við atvinnulífið á meðan námi stendur. Með því að tengja nemendur háskólans við atvinnulífið þá gera þeir sér fyrr grein hvaða möguleikar standa þeim til boða. Við tengjum nemendur við atvinnulífið með því að draga hugsanlega atvinnuveitendur inn í háskólann og gefa nemendum tækifæri til að kynna sig og kynnast þeim. Möguleikarnir sem standa nemendum félagsvísindasviðs til boða eru gríðarlega margir en nemendum er yfirleitt ekki kynnt hvaða möguleika þeir hafa á meðan námi stendur. Það er ekki fyrr en okkur er spýtt út á atvinnumarkaðinn sem við þurfum að átta okkur sjálf á því hvað við viljum verða þegar við verðum stór en þá er oft of seint í rassinn gripið.

Við viljum vita hvað er í boði, hvernig fyrirtækið starfar og hvað við þurfum að gera til að komast þangað sem við ætlum okkur. Þetta gerum við m.a. með því að halda Atvinnudaga Félagsvísindasviðs. Nemendur verða að grípa sjálfir til aðgerða því það gerir þetta enginn fyrir okkur.

Fyrirtæki eru langflest opin fyrir því að hafa fyrstu snertingu við hugsanlega starfsmenn fyrr í ferlinu og geta þá átt möguleika að þjálfa þá áður en þeir klára nám. Fáum til okkar gestafyrirlesara, búum til tækifæri fyrir nemendur að eiga samræður við toppa atvinnulífsins. Bjóðum fyrirtækin velkomin til okkar svo þau geta boðið okkur velkomin til sín. Tengingin er þá komin miklu fyrr og ferlið verður skilvirkara fyrir alla.

Stúdentar þurfa að draga til sín þau tækifæri sem eru nú þegar til staðar.

Það er kominn tími til að tengja.

Höfundar greinarinnar skipa 1. og 2. sæti lista Vöku á félagsvísindasviði.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×