Enski boltinn

Lykilmaður Chelsea segir að hjarta sitt sé í Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thibaut Courtois.
Thibaut Courtois. Vísir/Getty
Thibaut Courtois, markvörður Chelsea, hefur ekki enn framlengt samning sinn við Chelsea og það er ekki hægt að heyra annað á síðustu viðtölum hans en að hann vilji komast aftur í spænska boltann.

Courtois sagði í nýju viðtali að hjarta sitt væri í Madrid en samningur hans við Chelsea rennur ekki út fyrr en árið 2019. Í framhaldinu hefur belgíski landsliðsmarkvörðurinn verið orðaður við Evrópumeistara Real Madrid.

Courtois er 25 ára gamall og kom til Chelsea áttján ára frá Genk en var síðan lánaður til spænska liðsins Atletico Madrid í þrjú tímabil.

„Mitt persónulega líf er tengt Madrid. Börnin mín tvö búa þar með móður sinni. Ég tala við dóttur mína á hverjum degi á FaceTime. Hún segir oft að hún sakni mín. Sonur minn er of ungur ennþá,“ sagði Thibaut Courtois í viðtali við Foot Magazine. Sky Sports segir frá.

„Ef sá möguleiki kemur upp þá vil ég komast aftur til Spánar. Staðan er bara ekki auðveld. Hjarta mitt er samt í Madrid. Það er lógísk og ætti að vera skiljanlegt,“ sagði Courtois.





„Ef þeir vilja fá mig þá verða þeir að hafa samband við Chelsea. Við sjáum til. Þeir hafa ekki gert það hingað til. Það sem er öruggt að ég mun snúa til baka til Madrid einn daginn. Ég elska Spán og ég elska borgina. Ég eyddi þremur yndislegum árum þar með Atletico Madrid og þar varð ég að manni,“ sagði Courtois.

Courtois sagði að fyrstu dagar hans í London hafi ekki verið auðveldir. „Ég grét fyrst þegar ég kom og þetta var erfitt. Núna líður mér samt vel hér,“ sagði Courtois.

„Við þurfum ekkert að flýta okkur. Ég er með samning til 2019 og ég mun framlengja hann. Við ætlum að ræða nýjan samning í febrúar því það var nóg að gera hjá klúbbnum í síðasta mánuði,“ sagði Courtois.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×