Enski boltinn

Rooney opnar sig um atvikið með Ronaldo á HM 2006: „Ég reyndi að láta reka hann út af“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney röltir af velli og Cristiano Ronaldo fylgist vel með árið 2006.
Wayne Rooney röltir af velli og Cristiano Ronaldo fylgist vel með árið 2006. vísir/getty
Wayne Rooney, framherji Everton og markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi, var gestur í þættinum Monday Night Football á Sky Sports í byrjun vikunnar og þótti fara á kostum.

Rooney greindi leiki í ensku úrvalsdeildinni sem og að svara hinum og þessum spurningum um ferilinn en ein þeirra sneri að landsliðinu og hvar honum fannst að enska liðið hefði getað gert miklu betur.

England var með mjög gott lið árið 2006 á HM í Þýskalandi en þar tapaði liðið í átta liða úrslitum fyrir Portúgal í vítaspyrnukeppni. Rooney mætti meiddur til leiks og sér eftir því.

Skrítin tilfinning

„Árin 2004 og 2006 vorum við óheppnir að tapa í vítaspyrnukeppnum. Ef ég gæti farið aftur í tímann myndi ég ekki taka þátt á HM 2006. Ég var fótbrotinn þarna rétt áður og ég var ekki í almennilegu formi. Jermaine Defoe flaug með liðinu út og var að æfa en svo allt í einu flýg ég til Þýskalands og hann fer heim,“ segir Rooney en myndband af þessu má sjá neðst í fréttinni.

„Þegar maður er ekki í leikformi tekur maður stundum slæmar ákvarðanir og það gerði ég. Þetta rauða spjald hefði getað kostað okkur leikinn en svo töpum við eins og allir vita í vítaspyrnukeppni,“ segir hann, en hvernig leið Rooney eftir leik?

„Það var skrítin tilfinning að vera rekinn út af. Ég sat í búningsklefanum og hugsaði um að ef við kæmumst áfram myndi ég missa bæði af undanúrslitunum og úrslitaleiknum því að ég fékk beint rautt spjald en ef við kæmumst ekki áfram væri það mér að kenna.“

Leystu málin strax

Eitt af frægari atvikum fótboltans á seinni árum átti sér stað í leiknum þegar að Cristiano Ronaldo, þáverandi samherji Rooney hjá Manchester United, hvatti dómarann eindregið til að reka enska framherjann út af og blikkaði svo þegar að spjaldið fór á loft.

Mikið var gert úr þessu og var baulað á Ronaldo út um allt England á næstu leiktíð. Atvikið hafði þó ekki meiri áhrif en það að Ronaldo sprakk endanlega út með Rooney í frábæru formi og liðið varð Englandsmeistari þrjú ár í röð eftir HM 2006. Þeir félagarnir leystu málin skömmu eftir leikinn.

„Ég talaði við Ronaldo eftir leikinn í göngunum þegar við vorum búnir í sturtu.  Ég sagði honum að fjölmiðlar ættu eftir að vilja gera mikið úr þessu og stía okkur í sundur. Ég sagði honum að hafa ekki áhyggjur af þessu. Ég hefði gert nákvæmlega sama hlut ef ég hefði verið í hans sporum,“ segir Rooney.

„Ég reyndi að láta dómarann spjalda hann í fyrri hálfleik fyrir að dýfa sér. Hann var samherji minn í félagsliðinu en í leik Englands á móti Portúgal var hann mótherji og því myndi ég alltaf reyna að láta reka hann út af ef ég gæti það,“ segir Wayne Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×