Erlent

239 klappstýrur hvetja íþróttamenn Norður-Kóreu til dáða

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal þess sem yfirvöld litu til við val klappstýra var útlit, bakgrunnur fjölskyldna þeirra, hæfileikar og auðvitað hollusta við yfirvöld Norður-Kóreu.
Meðal þess sem yfirvöld litu til við val klappstýra var útlit, bakgrunnur fjölskyldna þeirra, hæfileikar og auðvitað hollusta við yfirvöld Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Norður-Kórea hefur sent 239 klappstýrur til Suður-Kóreu þar sem þær eiga að hvetja íþróttamenn ríkisins til dáða á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang. Þar sem einungis tíu íþróttamenn keppa fyrir Norður-Kóreu munu þær einnig styðja íþróttamenn Suður-Kóreu. Konurnar, sem voru allar í samræmdum klæðnaði, eru hluti af 280 manna sendinefnd sem fór yfir víggirt landamæri ríkjanna í dag.

Samkvæmt frétt AFP fóru klappstýrurnar í gegnum ítarlegt valferli áður en þær voru sendar af stað. Meðal þess sem yfirvöld litu til var útlit, bakgrunnur fjölskyldna þeirra, hæfileikar og auðvitað hollusta við yfirvöld Norður-Kóreu.

AFP segir klappstýrurnar hafa slegið í gegn í Suður-Kóreu og margir hafi hrósað þeim og kannski sérstaklega klæðnaði þeirra á samfélagsmiðlum í dag.



Norður-Kórea hefur þrisvar sinnum áður sent klappstýrur á íþróttaviðburði í Suður-Kóreu. Það var árið 2002, 2003 og 2005. Ein af klappstýrunum árið 2005, Ri Sol-ju, er nú eiginkona Kim Jong Un.

Klappstýrurnar ræddu lítið sem ekkert við fjölmiðla og aðra sem biðu þeirra og voru þær fluttar hratt og örugglega upp í rútur og á hótel í afskekktum bæ sem er í um 120 kílómetra fjarlægð frá Pyeongchang.

Útlit er fyrir að Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un og áróðursráðherra Norður-Kóreu, muni einnig heimsækja Suður-Kóreu á meðan ólympíuleikarnir standa yfir. Hún verður þá eini meðlimur Kim fjölskyldunnar sem ferðast hefur til Suður-Kóreu.

Þó yfirvöld Suður-Kóreu hafi samþykkt að Norður-Kórea fái að taka þátt í ólympíuleikunum eru ekki allir sáttir við það þar í landi. Gagnrýnendur segja að Norður-Kórea hafi í raun stolið leikunum og noti þá í áróðursskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×