Erlent

Rekinn úr landi eftir innsetningu Odinga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Miguna Miguna og Raila Odinga á „innsetningarathöfninni“.
Miguna Miguna og Raila Odinga á „innsetningarathöfninni“. Vísir/epa
Ríkisstjórn Uhuru Kenyatta í Keníu vísaði í gær stjórnarandstæðingnum Miguna Miguna úr landi, kom honum upp í flugvél og sendi til Hollands, þaðan til Kanada. Miguna kveðst vera með tvöfaldan ríkisborgararétt, kenískan og kanadískan, en hann var rekinn úr landi fyrir að hafa komið að óopinberri, táknrænni innsetningarathöfn stjórnarandstæðingsins og fyrrverandi forsetaframbjóðandans Raila Odinga á dögunum.

Miguna leiðir Mótstöðuhreyfingu kenísku þjóðarinnar, samtök sem ríkisstjórnin lýsti yfir þann 30. janúar að væru skipulögð glæpasamtök. Hann var handtekinn í síðustu viku en þegar mál hans fór fyrst fyrir dóm skipaði dómari yfirvöldum að sleppa Miguna. Það var ekki gert, þess í stað var Miguna aftur dreginn fyrir dóm í smábæ, um sextíu kílómetrum frá höfuðborginni, sakaður um að lýsa því yfir að ætla að fremja lögbrot.

Hæstiréttur ríkisins fyrirskipaði svo á þriðjudagskvöld að Miguna yrði sleppt úr haldi og að ákærur á hendur honum yrðu settar á ís þar til lögreglumenn kæmu með hann á ný fyrir dómstól í Naíróbí. Það gerðist ekki og var Miguna sendur úr landi eins og áður segir.

„Þessi ólögmæta harðstjórn neyddi mig um borð í flug KLM frá Naíróbí til Amsterdam og þverbraut þannig gegn stjórnarskránni, fimm dómsúrskurðum og almennri skynsemi,“ sagði Miguna í yfirlýsingu í gær.

Deilt hefur verið um ríkisborgararétt Miguna enda ólöglegt að reka kenískan ríkisborgara úr landi. Yfirvöld segja Miguna hafa afsalað sér ríkisborgararétti sínum en Miguna segist ekki hafa gert neitt slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×