Skoðun

Eftirlaun lægri hér en í ríkjum OECD; þó meiri hagvöxtur hér

Björgvin Guðmundsson skrifar
Hvað er brýnast að gera í íslenskum þjóðmálum í dag? Brýnast er að útrýma fátækt og bæta kjör þeirra, sem lakast standa í íslensku þjóðfélagi. Það eru 6.000 börn, sem búa við fátækt á Íslandi í dag. Það er smánarblettur á íslensku þjóðfélagi. Það þarf strax í dag að ganga í að leysa það mál; ekki setja málið í nefnd eins og ríkisstjórnin vill gera.

Síðan þarf einnig strax að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja. Þeir, sem eingöngu hafa lífeyri frá almannatryggingum geta ekki lifað af lífeyrinum frá TR. Giftur aldraður hefur í dag 204 þúsund kr. eftir skatt (hefur ekki lífeyrissjóð). Það lifir enginn af þessari upphæð. Lyf og læknishjálp verða útundan; það er mannréttindabrot. Ríkisstjórnin ætlar að athuga þetta mál í vor. Það er alltof seint. Það á að leysa það strax í dag. Það þolir enga bið að leiðrétta lífeyrinn. Það verður að gerast strax.

Eftirlaun hækki um 36 milljarða

Hvað þarf að hækka lífeyri aldraðra mikið svo hann sé mannsæmandi og dugi vel fyrir öllum útgjöldum. Að mínu mati þarf að hækka hann í 425 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt, 320 þúsund kr. eftir skatt. Ég tel það vera lágmark til þess að lifa sómasamlegu lífi. Í dag er lífeyrir eftir skatt 243 þúsund á mánuði. Hér er því verið að leggja til 77 þúsund króna hækkun á mánuði eftir skatt. Ýmsum mun ef til vill finnast þetta mikil hækkun. Og víst er það rétt. En á það er að líta, að lífeyrir í dag er mjög lágur, alltof lágur og þess vegna þarf að hækka hann mikið.

Nýlega vann dr. Haukur Arnþórsson skýrslu fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík um kjör aldraðra. Í henni kemur fram, að eftirlaun aldraðra á Íslandi eru mun lægri en eftirlaun í OECD-ríkjunum, þ.e. sem hlutfall af þjóðartekjum. Eftirlaun aldraðra á Íslandi eru 5,1% af þjóðartekjum en í ríkjum OECD eru eftirlaun aldraðra 8,2% af þjóðartekjum, þ.e. meðaltalið. Hér er fjallað um eftirlaun (lífeyri) frá hinu opinbera, þ.e. almannatryggingum. Dr. Haukur Arnþórsson segir, að til þess að jafna metin og lyfta eftirlaunum á Íslandi upp í það sama og þau eru að meðaltali í OECD-ríkjunum þurfi að hækka eftirlaun aldraðra á Íslandi um 36 milljarða. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar og leiða í ljós, að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki staðið sig gagnvart eldri borgurum. Íslenskir stjórnmálamenn hafa brugðist öldruðum. Enda er það svo, að alþingismenn hafa flestir hverjir engan áhuga á kjaramálum aldraðra. Ýmist eru kjaramál aldraðra í neðsta sæti forgangslistans hjá þeim eða alls ekki á listanum.



Hækkun eftirlauna strax

Ég hef lagt til, að afnám skerðinga eigi sér stað á þremur árum en þá er það auðvelt í framkvæmd fyrir ríkið. Hins vegar tel ég, að hækkun eftirlauna eigi að gerast strax. Það er óforsvaranlegt að hafa eftirlaun lægri hér á landi en í löndum OECD, þegar hagvöxtur er meiri hér en í ríkjum OECD. Það er í rauninni verið að svíkja eldri borgara um hlutdeild í hagvextinum. Það er illa komið fram við eldri borgara. Það eru aldraðir sem hafa skapað það þjóðfélag, sem við búum við í dag. Þegar mikil uppsveifla er í efnahagslífi landsins og hámarkshagvöxtur er kjörum aldraðra haldið niðri og þau höfð lægri en í ríkjum OECD. Þetta verður að leiðrétta strax. Það þolir enga bið.



Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×