Skoðun

Ökuréttindi ekki mannréttindi

Frosti Logason skrifar
Íbúar höfuðborgarsvæðisins fengu í fangið vænan skammt af óblíðri náttúru norðurskautsins þegar þeir fóru á fætur einn morguninn í vikunni. Það hafði snjóað talsvert í upphafi þorrans og það kom okkur að sjálfsögðu verulega á óvart. Umferð úr nágrannasveitarfélögum sem alla jafna er nokkuð þung á álagstímum inn til Reykjavíkur gekk vægast sagt hörmulega. Þúsundir ökumanna sátu fastir í stíflunni og fengu þeir þar nægan tíma til að hugleiða landsins gagn og nauðsynjar.

Eitt af því sem hvarflaði að mér er ég sat í bílaröðinni þennan dag var hvort það væri mögulegt að einhverjir þessara ökumanna væru ekki hæfir til vera með ökuréttindi. Í dag er það þannig að nánast hver sem er getur aflað sér slíkra réttinda. Sjálfur veit ég um nokkra sem náð hafa prófinu þrátt fyrir að vera langt fyrir neðan meðalgreind. Persónulega var ég afleitur námsmaður á sautjánda aldursári en náði samt bóklega prófinu í fyrstu tilraun. Það segir mér að eitthvað sé að kerfinu okkar.

Síðan er það staðreynd að greindarvísitala fer ekki sjálfkrafa hækkandi eftir því sem við verðum eldri. Það er algengur og leiðinlegur misskilningur. Margt fólk sem af ýmsum ástæðum mætir aldrei neinum áskorunum í lífinu verður einungis heimskara með hverju ári sem líður og það sjáum við því miður allt í kringum okkur. Slíkir ökumenn verða hreinlega stórhættulegir í tækjum sem þeir ráða ekkert við þegar aðeins fer að frysta á helstu umferðaræðum borgarinnar. Borgarlína og sjálfkeyrandi bílar eru því hvorutveggja eitthvað sem við ættum öll að fagna. Við getum allavega sameinast um það.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×