Erlent

Hvítt duft í umslagi á nýjum vinnustað Árna Páls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi í Brussel
Frá vettvangi í Brussel Vísir/Getty
Lögregla hefur lokað fyrstu hæð skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel eftir að starfsmaður þar opnaði umslag sem innihélt hvítt efni. Sjö Íslendingar starfa fyrir sjóðinn, þar á meðal Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sem nýtekinn er við sem varaframkvæmdastjóri.

Eftir því sem Vísir kemst næst var umslagið stílað á starfsmann sjóðsins. Inn í umslaginu var annað umslag og í því var hvítt duft. Vegna gruns um að að einhvers konar eiturefni væri í umslaginu var hringt á lögreglu sem brást skjótt við.

Sérstakt eiturefnateymi lögreglunnar í Brussel mætti á svæðið og lokaði fyrstu hæð skrifstofunnar af. Samkvæmt heimildum Vísis voru fjórir starfsmenn teknir til skoðunar eftir að hafa komist í tæri við efnið. Enn sem komið er bendir fátt til þess að einhvers konar eiturefni hafi verið í umslaginu en fyllstu varúðar er gætt.

Er þetta í annað sinn á nokkrum vikum sem lögregla bregst við tilkynningu um hvítt duft í umslagi. Skrifstofum ráðherra innflytjendamála í ríkisstjórn Belgíu var lokað um tíma eftir að slíkt umslag barst. Ekki reyndist um miltisbrand að ræða í því tilviki.

Vel þekkt er að gerðar séu efnaárásir með því að koma miltisbrandi í duftkenndu formi fyrir í umslögum en fimm létust í röð miltisbrandsárása í Bandaríkjunum árið 2001. Taka lögregluyfirvöld því alvarlega ef hvítt duft finnst í umslögum en oftast nær er þó ekki um miltisbrand eða önnur eiturefni að ræða, líkt og árið 2008 er umslag sem innihélt hveiti var sent til bandaríska sendiráðsins á Íslandi.


Tengdar fréttir

Árni Páll til EES

Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðinn varaframkvæmdastjóri skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel, að tilnefningu íslenskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×