Íslenski boltinn

Lengjubikarinn fór af stað með látum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alexander Veigar Þórarinsson skoraði tvö mörk í kvöld
Alexander Veigar Þórarinsson skoraði tvö mörk í kvöld vísir/ernir
Grindavík bar sigurorð af HK í fyrsta leik Lengjubikars karla sem fram fór í Kórnum í kvöld.

Guðmundur Þór Júlíusson kom HK yfir eftir hálftíma leik og fór HK með eins marks forystu til leikhlés.

Það tók Grindvíkinga rúman klukkutíma að brjóta ísinn en það gerði Alexander Veigar Þórarinsson. Hann var svo oftur á ferðinni á 87. mínútu þegar hann skoraði úr víti, en í milli tíðinni hafði Nemanja Latinovic komið Grindvíkingum yfir.

Fyrirliðinn Gunnar Þorsteinsson innsiglaði svo sigur Grindvíkinga með fjórða markinu rétt fyrir lok venjulegs leiktíma.

Grindavík fer því á toppinn í riðli 4.

Í riðli 1 fór ÍA með öruggan sigur á Fram, 4-0. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik en Skagamenn hrukku í gang í seinni hálfleik.

Arnar Már Guðjónsson kom ÍA á bragðið á 50. mínútu áður en Ólafur Valur Valdimarsson tvöfaldaði forystuna níu mínútum seinna.

Hilmar Halldórsson skoraði þriðja markið á 86. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar gulltryggði Bjarki Steinn Bjarkason 4-0 sigur.

Kristófer Jacobson Reyes fékk sitt annað gula spjald í leiknum á 78. mínútu og var því rekinn í sturtu og spilaði ÍA manni fleirri síðustu mínúturnar.

Það var meiri spenna í opnunarviðureign riðils 2 þar sem KR og Þróttur mættust. Karl Brynjar Björnsson kom Þrótti yfir á 39. mínútu og fóru þeir rauðröndóttu með eins marks forystu í hálfleikinn.

KR-ingar skoruðu svo tvö mörk á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins og stálu sigrinum.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×