Tónlist

Slayer ætlar að setjast í helgan stein

Kjartan Kjartansson skrifar
Tom Araya (t.v.) og Kerry King (t.h.), einu upphaflegu meðlimir Slayer sem eru enn í sveitinni, hafa marga fjöruna sopið.
Tom Araya (t.v.) og Kerry King (t.h.), einu upphaflegu meðlimir Slayer sem eru enn í sveitinni, hafa marga fjöruna sopið. Vísir/AFP
Þungarokksgoðsagnirnar í þrassmetalhljómsveitinni Slayer ætla að leggja upp laupana eftir tónleikaferð með fleiri stórum nöfnum í bransanum í sumar. Sveitin hefur verið starfandi í hátt í fjóra áratugi.

Rolling Stone segir að meðlimir sveitarinnar hafi ekki gefið upp hvers vegna þeir ætli að leggja hana niður nú. Tilkynnt var um ákvörðunina í myndbandi á samfélagsmiðlasíðum hennar í gær.

Fyrir tveimur árum sagði Tom Araya, söngvari og bassaleikari Slayer, að tími væri kominn til að fara á eftirlaun eftir 35 ár í bransanum. Bar hann meðal annars fyrir sig að hann gæti ekki lengur slammað við lögin eftir að hann fór í aðgerð á hálsi.

Svanasöngur Slayer verður því á tónleikaferð með hljómsveitum eins og Anthrax, Lamb of God, Behemoth og Testament. Ferðin hefst í Bandaríkjunum í maí.

Aðeins tveir upphaflegir meðlimir Slayer starfa enn með sveitinni, Araya og gítarleikarinn Kerry King. Gary Holt, gítarleikar Exodus, fyllti í skarð Jeff Hanneman þegar hann veiktist árið 2011. Hanneman lést árið 2013.

Trommarinn Paul Bostaph, sem hefur starfað með sveitinni í gegnum tíðina, tók sæti Dave Lombardo eftir að honum sinnaðist við hina meðlimina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×