Innlent

Fagnar samkeppni í leiðtogakjöri

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Mér líst bara vel á að við sitjandi borgarfulltrúar fáum góða samkeppni og að fram undan sé flott og góð barátta, segir Áslaug María Friðriksdóttir.
Mér líst bara vel á að við sitjandi borgarfulltrúar fáum góða samkeppni og að fram undan sé flott og góð barátta, segir Áslaug María Friðriksdóttir. Sjálfstæðisflokkurinn
Eyþór Arnalds lýsti í gær yfir framboði í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Fresti til að lýsa framboði í leiðtogakjöri flokksins lýkur í dag.

„Mér líst bara vel á að við sitjandi borgarfulltrúar fáum góða samkeppni og að fram undan sé flott og góð barátta,“ segir Áslaug María Friðriksdóttir,  aðspurð um framboð Eyþórs.

Áslaug og Kjartan Magnússon, sem bæði eru borgarfulltrúar, hafa þegar lýst yfir framboði í leiðtogakjörinu. Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, er sagður íhuga framboð alvarlega.

Eyþór er stærsti einstaki hluthafi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Meðal annarra fjárfestinga Eyþórs á undanförnum árum er kísilver Thorsil í Helguvík og ferðaþjónustufyrirtækið Special Tours í Reykjavík sem gerir út hvalaskoðunarbáta í Faxaflóa.

Eyþór á eignarhaldsfélagið Ramses sem hagnaðist um rúmlega 60 milljónir árið 2016. Frá þessu greindi Fréttablaðið í nóvember síðastliðnum. Hagnaður félagsins er að mestu kominn til af tekjum af hlutabréfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×