Fótbolti

Villas-Boas á sjúkrahús eftir óhapp í Dakar rallýinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas.
Andre Villas-Boas. Vísir/Getty
Andre Villas-Boas, fyrrum stjóri Chelsea og Tottenham, tók þátt í Dakar rallýinu í ár en náði ekki að klára. Þess í stað endaði þessi fertugu Portúgali inn á spítala.  BBC segir frá.

Andre Villas-Boas hætti störfum hjá kínverska félaginu Shanghai SIPG í nóvember en hann var knattspyrnustjóri Chelsea 2011-12 og tók síðan við liði Tottenham 2012-13 tímabilið.  Síðustu störf hans hafa verið í Rússlandi og Kína.  

Villas-Boas ákvað að hvíla fótboltann og reyna sig við hið goðsagnakenda Dakar rallý. Þetta er í fertugasta sinn sem þetta árlega rallý fer fram og að þessu sinni er það í Suður-Ameríku.

Eftir þriðja hluta keppninnar var hann átján mínútum og 50 sekúndum á eftir fyrsta manni en Villas-Boas kláraði aldrei fjórða hlutann.  Fyrstu fimm hlutarnir fóru fram í Perú og þar endaði keppni Portúgalans.

Í fjórða hlutanum keyrði Andre Villas-Boas Toyota Hilux bíl sinn á sandöldu með þeim afleiðingum að Villas-Boas var fluttur á sjúkrahús.

Hann slapp við beinbrot en meiddist á baki. Meiðslin sjá til þess að hann verður ekki með þegar Dakar rallýið fer til Bólívíu og Argentínu. Síðasti hlutinn fer fram í landi Lionel Messi og Diego Maradona 20. janúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×