Lífið

Sköpun og frumkvæði skipta mestu máli fyrir starfsfólk framtíðar

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Nemendum í Menntaskólanum á Tröllaskaga býðst að stunda margs konar óhefðbundið nám. Hér læra nemendur til dæmis björgun.
Nemendum í Menntaskólanum á Tröllaskaga býðst að stunda margs konar óhefðbundið nám. Hér læra nemendur til dæmis björgun. Mynd/Gísli Kristinsson
Lára skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga. Mynd/Gísli Kristinsson
Það má færa rök fyrir því að Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði sé nútímalegasti framhaldsskóli landsins. Þó að menntaskólinn sé í tiltölulega fámennu sveitarfélagi starfar þar fjölmargt metnaðarfullt starfsfólk með Láru Stefánsdóttur skólameistara í fararbroddi. Stór hluti nemenda er í fjarnámi, kennsluaðferðir í skólanum vekja athygli út fyrir landsteinana og árangurinn, en í skólanum er brotthvarf með minnsta móti, eða á bilinu 5-7 prósent í staðnámi og 6-8 prósent í fjarnámi.



„Okkar sérstaða felst í kennsluaðferðafræðinni og námsframboðinu. Við nýtum okkur þau tækifæri sem felast í nýrri námskrá og undirbúum nemendur okkar undir breyttan vinnumarkað og þá staðreynd að mörg þeirra starfa sem eru til í dag verða það ekki eftir 10-15 ár,“ segir Lára um áherslur skólans. Nemendur fara ekki í lokapróf heldur er frammistaðan metin jafnt og þétt yfir veturinn í verkefnavinnu. Í lok annar halda nemendur sýningu á vinnu annarinnar. „Stöðug verkefnavinna leiðir að okkar mati til meiri hæfni og árangurs,“ segir Lára.



„Sköpun og frumkvæði eru veigamikill þáttur í okkar námi. Virkni og sjálfstæði. Námið er í sífelldri þróun,“ segir hún og nefnir dæmi um nám í skólanum. „Vélmennafræði, tölvuleikjafræði og áfangar þar sem við blöndum saman viðfangsefnum, til dæmis tungumálanámi og íþróttum eða mat og menningu,“ segir Lára frá og útskýrir nánar: „Við höfum fengið hingað erlenda listamenn sem elda með nemendum og um leið læra þeir um menningu viðkomandi. Nýverið fóru nemendur til Akureyrar og elduðu með sýrlenskri fjölskyldu sem kom hingað sem flóttafólk. Þá gafst þeim tækifæri til að læra um menningu og sögu þessa fólks í návígi við það. Þau geta sett sig í spor þess. Sýrlendingarnir komu með börnin sín með sér, nemendur sáu að þau eru nútímalegt fólk eins og við. Þá get ég nefnt dæmi um áfanga í spænsku og íþróttum sem þótti vel heppnaður og hvetjandi. Nemendur lærðu saman spænsku og íþróttir og áfanganum lauk með ferðalagi til Spánar þar sem hvort tveggja var stundað, íþróttir og tungumálanám.“



Skila alltaf á sunnudögum

Meginhluti námsefnis er í kennslukerfi skólans, þar eru öll fyrirmæli og upplýsingar um verkefni ásamt leiðbeiningum um hvernig nálgast skal námsefni sem ekki er í kennslubókum eða inni í kennslukerfinu. Nemendur hafa skýr markmið í hverri viku og skila ávallt verkefnum á sama tíma, eða á sunnudagskvöldum. Þetta gildir um allt námsefni í skólanum. „Þetta skipulag er svipað og á góðum vinnustöðum. Nemendur vita alltaf til hvers er ætlast og hvenær þeir þurfa að skila verkefnum sínum. Þeir mega aldrei skila of seint.



Skipulagið styður einnig við virkni nemenda,“ segir Lára og segir bæði nemendur og kennara hæstánægða með fyrirkomulagið.

Stærstur hluti nemenda er í fjarnámi við skólann. Alls eru 380 nemendur í námi við skólann og 260 þeirra eru fjarnemendur. Þrátt fyrir þessa skiptingu eru nemendur ekki aðskildir í verkefnavinnu í skólanum. „Stað- og fjarnemendur vinna saman í hópavinnu. Það er ekkert aukaprógramm í boði fyrir fjarnema, sama nám er í boði fyrir alla nemendur. Við erum með samstarfsverkefni og fara nemendur til Danmerkur, Grikklands og Kanarí­eyja á þessari önn, svo dæmi séu tekin,“ segir Lára.





„Fjarnemarnir eru margs konar. Við erum með ungmenni á aldrinum 18-25 ára sem ljúka stúdentsprófi hjá okkur. Hér er líka afreksfólk í íþróttum við nám. Þá erum við í samstarfi við þjálfara þeirra. Staðnemar eru flestir úr nágrenninu og við tengjum við nærumhverfið. Við viljum ekki mennta fólk í burtu og bjóðum nemendum því nám í fjallaskíðamennsku og frumkvöðlafræði enda eru atvinnutækifæri víða um land með tilkomu aukins fjölda ferðamanna,“ bendir Lára á.



Hún nefnir að í námsframboði skólans sé megináhersla á bóknám, nám í íþróttum og útivist ásamt listnámi með áherslu á fagurlistir, listljósmyndun og skapandi tónlist. Sköpun og frumkvæði sé miðja allra áfanga í skólanum.





Nemendur á Tröllaskaga vinna í hópum með nemendum í fjarnámi. Mynd/Gísli


Allir læra frumkvöðlafræði

„Allir nemendur skólans þurfa að læra frumkvöðlafræði og taka áfanga um inngang í listum. Á hverri önn búum við til nýja áfanga. Horfum fram á veginn,“ segir Lára og nefnir sem dæmi um hversu vel starfsfólk fylgist með framþróun að í náminu á Tröllaskaga séu notuð að minnsta kosti 150 öpp og forrit í kennslu.



„Við erum í sífelldri vinnu við þróun náms og það er mögulegt því hér starfar einstaklega vel menntað og hæft starfsfólk. Sumu fólki finnst það ótrúlegt, að það hafi tekist á stað eins og Ólafsfirði. En þannig er það og skólinn hefur ítrekað verið stofnun ársins í könnun SFR sem endurspeglar ánægju starfsfólksins. Við brjótum einnig upp kennsluna á miðri önn. Þá fáum við gestakennara í eina viku, frá Reykjavík eða að utan. Við höfum fengið erlendan ljósmyndara frá Bandaríkjunum, kennara í popptónlist frá London, listkennara frá Hong Kong, kennara frá Listaháskólanum, Háskóla Íslands, íþróttakennara og fleiri. Við teygjum stundum skólann út.“



Lára segir árangur skólans góðan. „Um 60 prósent nemenda ljúka námi á þremur árum. En það er vaxandi hópur sem við útskrifum eftir 2 og ½ ár. Þá eru grunnskólanemar í auknum mæli í námi í einstökum áföngum.



Við erum að fara að halda alþjóðlega ráðstefnu: ecoMEDIAeurope. Þátttakendur verða frá mörgum Evrópuríkjum og alls staðar að af landinu. Málefnið er þróun og notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta verður þrettánda ecoMEDIA­europe-ráðstefnan sem haldin verður í heiminum og varð Menntaskólinn á Tröllaskaga fyrir valinu eftir mat stjórnenda ráðstefnunnar,“ segir Lára.





Áslaug Thorlacius skólameistari Myndlistaskólans með nemendum og kennara í litafræðiáfanga sem heitir Merking og skynjun. Fréttablaðið/Eyþór


Færri komast að en vilja

Myndlistaskólinn í Reykjavík býður upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs af listnámsbraut. Námið er hugsað fyrir þá sem stefna á frekara nám í listgreinum eða störf á sviði skapandi greina en gagnast hins vegar vel á mun breiðara sviði því þetta er afbragðsgóð menntun.



Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans, segir eftirspurn í námið mikla.



„Þetta er tveggja ára nám en forkrafan er sú að hafa lokið einu ári í framhaldsskóla. Samsetning náms á þessu fyrsta ári þarf að vera með ákveðnum hætti til að nemandinn nái að útskrifast héðan með stúdentspróf að loknu þriggja ára námi,“ segir Áslaug frá. „Fyrsti hópurinn var tekinn inn árið 2011. Þeir sem komu til okkar þá voru auðvitað mjög djarfir því þá var engin reynsla komin á þetta hjá okkur. Í dag er eftirspurnin hins vegar orðin miklu meiri en framboðið. Við fyllum út í öll horn hér í húsinu. Það komast miklu færri að en vilja,“ segir hún og segist vonast til að ríkið bæti við stuðning sinn við skólann þannig að hægt verði að fjölga plássum. „Flestir okkar umsækjendur hafa vitað af brautinni frá því áður þeir byrjuðu í framhaldsskóla og tóku fysta árið með það í huga að komast hingað. Því miður verður það hins vegar sífellt erfiðara og þeir eru fleiri og fleiri sem verða undir og komast ekki að sem mér þykir afar leiðinlegt,“ segir Áslaug.



Hún segir námið að mestu verklegt. Það byggi á klassískum grunnþáttum myndlistar, hugmyndavinnu og listasögu. Jafnframt læri nemendur kjarnagreinarnar íslensku, ensku og stærðfræði en bóklegir áfangar taki mið af myndlist og verkefnavinna í íslensku og stærðfræði sé bæði skrifleg og verkleg. „Hönnun og sjónræn miðlun er ríkur þáttur í allri verkefnavinnu nemenda. Mikil áhersla er líka lögð á að nemendur öðlist þjálfun í að tjá sig um eigin verk og listaverk almennt.“



Meðal annarra námsgreina eru teikning, módelteikning, litafræði, formfræði, ljósmyndun, myndvinnsla í tölvu og fjölbreytt verkstæðisvinna. Náminu lýkur með lokaverkefni sem er sýnt á vorsýningu skólans.



Áslaug segir nemendur skólans vel undirbúna undir frekara listnám hér á landi og þeim gangi líka vel að komast í nám erlendis. „Í dag eru nemendur helst ungt fólk sem ætlar sér að fara í listaháskóla og læra myndlist eða hönnun. Listaháskólar gera þá kröfu að nemendur komi með góðan grunn til náms.“





Alda Karen Hjaltalín og Sigríður María Egilsdóttir.


Að hakka lífið

Alda Karen Hjaltalín, sölu -og markaðsstjóri hjá Ghostlamp, stefnir á að stofna skóla í náinni framtíð. „Fyrsti áfanginn að því er að halda námskeið og fyrirlestra. Þann 19. janúar held ég fyrsta námskeiðið sem tengist skólanum sem ég ætla að stofna: L.I.F.E. – sem stendur fyrir: Learn, inspire, fulfill, experience. Þetta verður fyrsta námskeiðaröð skólans sem byrjar í Eldborgarsal í Hörpu og endar í San Francisco í lok árs,“ segir Alda Karen. „Þetta eru hagnýt námskeið. Á námskeiðinu fá nemendur bók sem kallast Lífsbiblían. Það er svona verkfærakassi og inniheldur alls kyns gagnleg tól sem er hægt að ná í. Ég vil að fólk sé svolítið róttækt í námi og því að breyta lífi sínu. Nám snýst um lífið sjálft og ég gef ungu fólki ráð sem gagnast mér. 

Segi þeim hvernig ég hakka lífið,“ segir Alda Karen sem hefur fengið fleiri til liðs við sig á námskeiðinu. Í pallborði mun til dæmis sitja Sigríður María Egilsdóttir lögfræðinemi. „Þetta er ótrúlega spennandi viðburður. Ég ákvað að taka þátt vegna þess að ég hlakka sjálf til að fylgjast með,“ segir Sigríður María sem sjálf hefur þurft að gera róttækar breytingar á eigin hugarfari. 

„Til dæmis þurfti ég þess með þegar ég byrjaði að vinna á lögfræðistofu úti í Bandaríkjunum eitt sumar, vitandi að ég hefði ekki sömu reynslu og þekkingu á bandarísku réttarkerfi og dómaframkvæmd og aðrir nemar á stofunni. Og við að taka þá ákvörðun að taka þátt í pólitísku starfi, með öllum þeim hæðum og lægðum sem því fylgir,“ segir Sigríður María sem bauð sig fram fyrir Viðreisn í alþingiskosningunum árið 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×