Fótbolti

Dómari sparkaði í leikmann og gaf honum síðan rauða spjaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Chapron rekur hér Diego Carlos útaf í gærkvöldi.
Tony Chapron rekur hér Diego Carlos útaf í gærkvöldi. Vísir/Getty
Mjög umdeilt atvik varð í leik Paris Saint-Germain og Nantes í frönsku deildinni í fótbolta í gærkvöldi en PSG vann þá 1-0 sigur á tíu mönnum Nantes.

Það eru einmitt kringumstæðurnar í þessu umrædda rauða spjaldi sem hafa kallað á sterk viðbrögð, bæði hjá leikmönnum og þjálfurum Nantes en líka á samfélagsmiðlum.

Dómarinn Tony Chapron virtist þá sparka til Brasilíumannsins Diego Carlos áður en hann lyfti rauða spjaldinu. Chapron gaf leikmanni Nantes þarna sitt annað gula spjald að því virist fyrir mótmæli.

„Þessi dómari á að fara í sex mánaða bann,“ sagði Waldemar Kita, stjórnarformaður Nantes en bætti við: „Ég vil samt eiginlega ekki trúa því að hann hafi gert þetta viljandi,“ sagði Kita.

Diego Carlos rakst óvart aftan í Tony Chapron dómara sem svaraði með að sparka til leikmannsins og gaf Brasilíumanninum síðan sitt annað gula spjald.





„Þetta er algjört grín. Ég fékk tuttugu skilaboð allstaðar af úr heiminum þar sem allir sögðu að þessi dómari væri brandari. Ef ég segi samt of mikið þá lendi ég fyrir siðanefndina. Við höfum nefnilega engan rétt til að tjá okkur,“ sagði Diego Carlos.

Angel di Maria skoraði eina mark leiksins eftir tólf mínútna leik og sigurinn skilaði Paris Saint-Germain ellefu stiga forskoti á toppi deildarinnar. Nantes er 20 stigum neðar í fimmta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×