Innlent

Snjóflóðahætta á norðanverðum Vestfjörðum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Veðurstofan hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum en snjóflóð féllu á vegi fyrir vestan síðustu nótt. Lægðin sem gekk yfir landið í gær gengur aftur inn á land með hvassviðri og áfram er spáð snjókomu og skafrenningi.

Fyrir og um síðustu helgi var það hlýtt á Vestfjörðum að snjóþekjan í fjalllendi hlýnaði og blotnaði víða. Síðan þá hefur kólnað og bætt í snjó sem búast má við að geti orðið óstöðugur. Því lýsti sjónflóðavakt Veðurstofunnar yfir óvissustigi í dag vegna snjóflóðahættu á Norðanverðum Vestfjörðum þar sem hættan er talin mikil. Einnig var lýst yfir óvissustigi  á utanverðum Tröllaskaga þar sem töluverð hætta er talin á snjóflóðum og einnig er viðvörun á Austfjörðum.

Snjóflóð féllu á vegi um Súðavíkurhlíð, Súgandafjörð og Gemlufallsheiði síðustu nótt og lokuðust vegirnir en Vegagerðin vann að mokstri í dag og opnuðust vegirnir eftir hádegi.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með gangi mála en búist er við því að lægðin sem gekk yfir landið í gær nái aftur til lands í kvöld eða nótt með norðvestan hvassviðri eða stormi og snjókomu norðan- og vestanlands, fyrst á Vestfjörðum. Á þessum slóðum má því búast við mjög lélegu skyggni á köflum og er fólki ráðlagt að sýna aðgát og fylgjast vel með spám og færð.

Samfara versnandi veðri getur hættan á snjóflóðum aukist og fylgist Veðurstofan sérstaklega með hesthúsahverfi á Bolungarvík en eins og staðan sé metin núna er önnur byggð ekki í hættu. Haldi áfram að snjóa og versni veðrið mikið gæti verið gripið til rýmingar þá gæti verið tekin ákvörðun um lokun vega síðar í kvöld vegna snjóflóðahættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×