Lífið

Hlakkar til að keppa á Ólympíuleikunum

Elín Albertsdóttir skrifar
Freydís Halla er landsliðskona í alpagreinum en í næsta mánuði reynir á hana á Vetrarólympíuleikunum í S-Kóreu.
Freydís Halla er landsliðskona í alpagreinum en í næsta mánuði reynir á hana á Vetrarólympíuleikunum í S-Kóreu.
Freydís Halla Einarsdóttir, landsliðskona í alpa­grein­um, heldur til Suður-Kóreu í næsta mánuði þar sem hún tekur þátt í Vetrarólympíuleikunum fyrir Íslands hönd. Hún æfir þessa dagana af miklum krafti í Bandaríkjunum.

Þetta er í fyrsta skipti sem Freydís Halla keppir á Ólympíuleikunum. Hún segir mikla tilhlökkun vera í loftinu enda hefur hún aldrei áður komið til Asíu. „Ég er spennt fyrir mótinu sjálfu og öllu í kringum það, líka því að fara til Suður-Kóreu. Mér finnst spennandi að sjá nýja staði og kynnast öðruvísi menningu. Ég hlakka mikið til að sjá þetta flotta Ólympíusvæði og keppa þar. Fyrir utan keppnina sjálfa hlakka ég til að vera á opnunarhátíðinni og ganga þar inn með íslenska liðinu,“ segir Freydís Halla en hún var mjög nálægt því fyrir fjórum árum að komast á leikana og var næsta stelpa inn. Nú fær gamall draumur að rætast. „Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að keppa á Ólympíuleiknum. Það er einhvern veginn öðruvísi stemning í kringum Ólympíuleikana heldur en til dæmis á heimsmeistaramótum,“ segir hún.



Freydís Halla fór í nokkrar æfingaferðir síðasta haust, meðal annars til Austurríkis, Sviss og Kaliforníu. Undanfarið hefur hún verið við æfingar í Bandaríkjunum en hún er í BSc-námi í íþróttalífeðlisfræði eða Exercise and Sport Physiology í Plymouth í New Hampshire þar sem hún segist hafa mjög flottar aðstæður til æfinga en þær hafa verið á fullu núna í janúar. „Skólinn byrjar ekki fyrr en í lok mánaðar svo ég get einbeitt mér 100% að því að æfa og keppa,“ segir hún. „Hér eru topp aðstæður flesta daga, en það fer auðvitað eftir veðri eins og alls staðar annars staðar. Við erum með þrjú skíðasvæði hér sem eru í innan við hálftíma akstursfjarlægð, svo ef heimasvæðið okkar, Waterville Valley, er lokað þá förum við bara eitthvert annað.“

Freydís Halla hefur stundað æfingar af miklu kappi undanfarna mánuði.
Foreldrar Freydísar Höllu, Einar Þór Bjarnason og Iðunn Lára Ólafsdóttir, ætla til Suður-Kóreu og fylgjast með sinni konu. „Það er frábær stuðningur fyrir mig að hafa foreldra mína á staðnum. Þau hafa komið með mér og fylgst með mér keppa á nokkrum heimsmeistaramótum en þetta verður klárlega allt öðruvísi og stærra,“ segir hún og viðurkennir að foreldrarnir séu bæði stoltir af henni og spenntir fyrir hennar hönd.

Þegar Freydís Halla er spurð hvort hún stefni á verðlaunapall, svarar hún. „Ég myndi nú ekki segja að verðlaunapallur sé raunhæft markmið fyrir mig en auðvitað stefni ég á að gera mitt besta og við sjáum til hversu langt það fleytir mér.“

Vetrarólympíuleikarnir fara fram í PyeongChang í Suður-Kóreu frá 9.- 25. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×