Innlent

Undirbýr dómsmál gegn Sigríði Andersen

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, braut lög við skipan dómara í Landsrétt samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, braut lög við skipan dómara í Landsrétt samkvæmt dómi Hæstaréttar. Vísir/Vilhelm

Jón Höskuldsson, héraðsdómari, undirbýr nú dómsmál gegn Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vegna skipanar dómara við Landsrétt. Jón var einn þeirra 15 sem hæfnisnefnd mat hæfasta til að taka við embætti dómara við réttinn en Sigríður skipaði hann þó ekki. Skipti hún út alls fjórum af lista hæfnisnefndarinnar fyrir aðra fjóra einstaklinga.

Greint er frá undirbúningi dómsmálsins á vef RÚV en í desember var greint frá því að Jón hefði sent Sigríði bréf þar sem hann krafði ríkið um skaða-og miskabætur vegna skipanar dómara við Landsrétt. Engin viðbrögð hafa borist við bréfinu að því er segir í frétt RÚV.

Nokkrum dögum áður hafði Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög við skipan dómara í Landsrétt og dæmt ríkið til að greiða þeim Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni 700 þúsund krónur vegna þess. Voru þeir, líkt og Jón, á lista hæfnisnefndar yfir þá 15 hæfustu en var svo skipt út af ráðherra.

Jón fer fram á um 30 milljónir króna í bætur frá ríkinu vegna málsins en tryggingasérfræðingi hefur nú verið falið að reikna út nákvæma fjárhæð kröfunnar. Auk Jóns hefur Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, krafið ríkið um bætur en hann var fjórði maðurinn sem Sigríður skipti út af lista hæfnisnefndarinnar.


Tengdar fréttir

Krefst tugmilljóna vegna skipunar Sigríðar

Héraðsdómarinn Jón Höskuldsson hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar sem hann krefur íslenska ríkið um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×