Innlent

Dómnefndin kveðst ekki lúta boðvaldi ráðherra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er settur dómsmálaráðherra í málinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er settur dómsmálaráðherra í málinu. vísir/ernir

Dómsmálaráðuneytið hefur birt svarbréf dómnefndar um hæfni umsækjenda um átta embætti héraðsdómara á vef sínum. Í bréfinu kemur meðal annars fram að nefndin lúti ekki boðvaldi ráðherra heldur sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd.

Er vísað annars vegar í lög um dómstóla og hins vegar í nýgenginn dóm Hæstaréttar þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hefði brotið lög við skipun dómara í Landsrétt. Voru tveimur umsækjendum, þeim Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni, dæmdar miskabætur vegna þess.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er settur dómsmálaráðherra við skipun héraðsdómara nú þar sem Ástráður er einn umsækjenda.

Í liðinni viku sendi hann dómefndinni bréf þar sem hann óskaði eftir eftir nánari upplýsingum um matið, meðal annars hvort dómnefndin hefði raðað umsækjendum með hlutlægum hætti upp í stigatöflu, hvort sett hafi verið töluleg viðmið um mat á því hvenig umsækjendur uppfylltu einstaka kröfu, hvert hefði verið innbyrðis vægi sjónarmiða sem dómnefndin lagði mat á og hvert hefði verið innbyrðis vægi mats á umsóknargögnum.

Grófflokkun í excel-skjali sem verður ekki afhent
Í svarbréfi nefndarinnar sem barst ráðuneytinu í dag er vísað til þess úr fyrrnefndum dómi Hæstaréttar að samkvæmt lögskýringargögnum laga nr. 92/2989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds, þar sem reglur um dómefnd til að meta hæfni umsækjenda var fyrst sett í lög, hafði lagasetningin það að markmiði að styrkja sjálfstæði dómstóla. Þá átti hún einnig að auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins.

Sömu reglur og voru í lögum nr. 92/1989 voru efnislega teknar upp í lögum um dómstóla, nr.15/1998 að því er fram kemur í svarbréfinu með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar. Í þeim lögum var þeirri rannsóknarskyldu sem mælt var fyrir um í stjórnsýslulögum við skipun héraðsdómara létt að miklu leyti af ráðherra.

Rannsóknarskyldan fór þess í stað í hendur „sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar sem skipuð var með tilliti til þess að tryggt yrði að sérþekking væri þar fyrir hendi um mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti.“

Af þessu leiði að dómnefndin lúti ekki boðvaldi ráðherra heldur sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd.

Varðandi þá athugasemd setts ráðherra að umsækjendum hafi ekki verið raðað með hlutlægum hætti upp í stigatöflu, líkt og gert var þegar mati á hæfni umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt var skilað, segir í svarbréfinu að dómnefndin hafi nú nýtt excel-skjal til að grófflokka umsækjendur í upphafi. Það sé vinnuskjal og verði ekki afhent.

„Dómnefnd er ekki kunnugt um, að t.d. excel skjöl/töflur hafi verið notuð í störfum nefndarinnar fyrr en í maí 2017, þótt nefndin hafi notað „skorblöð“ til uppröðunar í fyrri störfum og einnig nú. [...] Um þetta atriði er annars rétt að nefna, að vinnubrögð nefndarinnar voru í samræmi við störfin frá setningu reglna nr. 620/2010, með því eina fráviki, sem nefnt hefur verið um excel skjal djómnefndar í maí 2017,“ segir í svarbréfinu.

Nefndinni ekki ljóst hvað ráðherra eigi við
Bréf setts dómsmálaráðherra til dómnefndarinnar var í tíu töluliðum og er svarbréf nefndarinnar einnig í tíu töluliðum.

Í sjöunda tölulið er þannig farið yfir sjöundu athugasemd ráðherrans þar sem hann sagði:
„Í sjöunda lagi er undir lokin á umsögninni tiltekið hverja dómnefndin metur hæfasta, án þess að það sé rökstutt sérstaklega á grundvelli heildarmats hvers vegna þessir umsækjendur en ekki aðrir eru metnir hæfastir.“

Dómnefndin segir í svarbréfinu að hér sé henni ekki ljóst hvað ráðherra eigi við. Þannig hafi í köflunum sem á undan fóru, áður en komið væri að lokum umsagnarinnar, komið fram hvaða þættir það væru sem hefðu verið metnir og hvernig umsækjendur hefðu komið út úr þeim.
 
Megináherslan hefði verið á þrjá stóra þætti, það er dómarareynslu, reynslu af lögmannsstörfum og stjórnsýslustörfum. Væru þessir þættir metnir jafnt auk þess sem fram færi sundurgreint mat á menntun, fræðistörfum, kennslu og útgáfu.

„Í þeim samanburði sem fer fram í hverjum þætti felst matið, sem er síðan dregið saman í heildarniðurstöðu,“ segir í svarbréfinu.

Störf sem vega mjög miklu minna en störf við héraðsdómstóla
Þá hefur nokkuð verið fjallað um þá athugasemd ráðherrans sem snýr að í þættinum um reynslu af dómarastörfum hafi umsækjanda verið raðað efst sem hefði átta ára reynslu sem settur dómari en umsækjanda sem hefði verið skipaður héraðsdómari í um tuttugu ár verið raðað skör lægra.

Um þetta segir í svarbréfi nefndarinnar:

„Fyrst ber að nefna, að sá umsækjandi sem ráðherra telur hafa verið skipaðan héraðsdómara í um tuttugu ár, var fyrstu þrjú árin fulltrúi fyrir réttarfarsbreytingar 1. júlí 1992 og taldi nefndin störf við sýslumannsembætti/bæjarafógetaembætti vega mjög miklu minna en störf við héraðsdómstóla eftir þann tíma. Viðkomandi umsækjandi hefur sinnt dómarastörfum í um 16 ár, en ekki 20, að teknu tilliti til leyfa. Enn er þess að gæta að viðkomandi umsækjandi hefur ekki sinnt dómströfum frá lokum ágúst 2008. Umsækjandinn sem raðað er ofar hefur sinnt dómstörfum nánast alveg samfellt síðustu átta ár og áður sem aðstoðarmaður dómara nær sex ár.“

Svarbréf dómefndarinnar má sjá í heild sinni hér og bréf setts dómsmálaráðherra til hennar hér.


Tengdar fréttir

Ráðherra mun birta svarbréf dómnefndar

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um átta stöður héraðsdómara hefur óskað eftir því við Guðlaug Þór Þórðarson, settan dómsmálaráðherra, að svarbréf nefndarinnar við bréfi ráðherra verði birt á vef ráðuneytisins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.