Íslenski boltinn

Gísli Eyjólfs til reynslu hjá Haugesund | „Við viljum samt ekki missa alla okkar leikmenn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Eyjólfsson í leik á móti FH síðasta sumar.
Gísli Eyjólfsson í leik á móti FH síðasta sumar. Vísir/Ernir
Gísli Eyjólfsson gæti orðið enn einn Blikinn til að fara út í atvinnumennsku í fótbolta en þessi hæfileikaríki leikmaður er nú í heimsókn hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Haugesund.

Haugesund endaði í 10. sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en félagið er frá vesturströnd Noregs.

Gísli átti mjög gott tímabil með Breiðabliki í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð, skoraði 6 mörk sjálfur og átti þátt í undirbúningi sex annarra marka Blika.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks staðfesti við Vísi að Gísli sé farinn út til æfinga til Noregs.

„Þetta er frábær leikmaður sem eðlilega vekur athygli. Þeir báðu um að fá hann í heimsókn og við gáfum leyfi á þessum tímapunkti,“ sagði Eysteinn.

Það er nóg að gera hjá Eysteini að svara fyrirspurnum erlendis frá enda margir Blikar sem hafa farið í atvinnumennsku síðustu misserin.

„Nú eru fimm stelpur farnar út og hrúga af strákum. Það er nóg að gera. Við viljum samt ekki missa alla leikmenn en viljum gefa mönnum tækifæri til að sjá hvernig þetta er annarsstaðar. Svo kemur bara í ljóst hvort að það verði eitthvað úr því,“ sagði Eysteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×