Innlent

Tugir björgunar­sveitar­manna í ó­veðurs­verk­efnum á höfuð­borgar­svæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fyrstu útköllin á höfuðborgarsvæðinu bárust um sexleytið í morgun og hafa björgunarsveitirnar farið í rúmlega þrjátíu verkefni.
Fyrstu útköllin á höfuðborgarsvæðinu bárust um sexleytið í morgun og hafa björgunarsveitirnar farið í rúmlega þrjátíu verkefni. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitir Landsbjargar hafa haft í nógu að snúast í óveðrinu sem gengið hefur yfir suðvesturhorn landsins í morgun. Nánast allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út vegna veðursins.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, eru sextíu björgunarsveitarmenn í verkefnum núna en upp úr klukkan tvö í nótt byrjuðu þakplötur að fjúka bæði í Grindavík og Reykjanesbæ.

Fyrstu útköllin á höfuðborgarsvæðinu bárust svo um sexleytið í morgun og hafa björgunarsveitirnar farið í rúmlega þrjátíu verkefni.

„Þetta eru hefðbundin óveðursverkefni þar sem lausamunir og þakplötur eru að fjúka. Þetta er helst í efri byggðum, bæði í Kópavogi og Reykjavík, og á Völlunum í Hafnarfirði,“ segir Davíð Már í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort einhver trampólín hafi farið af stað segir hann að sér sé ekki kunnugt um það. Björgunarsveitirnar verða að störfum á meðan þurfa þykir en veðrið náði hámarki upp úr klukkan átta í morgun og verður að mestu gengið niður í hádeginu í dag.


Tengdar fréttir

Lægðirnar koma á færibandi í vikunni

Óveðrið sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið náði hámarki upp úr klukkan 8 í morgun að sögn Árna Sigurðssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×