Skoðun

"Ég á mér draum“

Benjamín Hrafn Böðvarsson skrifar
Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa tilvitnun frá Martin Luther King Jr. sem fyrirsögn fyrir þessa grein mína er að ég get með góðri samvisku notað hana, því að hún endurspeglar þá tilfinningu sem ég hef í augnablikinu. Ég á mér draum, draum um betra Ísland. Við Íslendingar erum smáþjóð, eins konar smáþorp á plánetu Jörð en þrátt fyrir að við séum fá þá virðist sem að við getum sýnt heiminum að það býr margt í okkur.

Íslendingar eru mikil keppnisþjóð, við sjáum það t.d. á jólunum, þegar við keppum á móti vinum og fjölskyldu um Laugaveginn, Bankastræti og Kringluna í Monopoly með það að markmiði að setja okkar nánustu á hausinn eða annað dæmi um að vera gáfaðasti fjölskyldumeðlimurinn í Bezzerwizzer. Við sjáum líka keppnisskapið og þá á töluvert jákvæðari hátt í landsliðsleikjum Íslands. Ég fyllist stolti og kærleika og verð oft hálf meyr þegar ég sé hvílíka samstöðu við Íslendingar getum sýnt í hvert skipti sem landsliðið okkar keppir við erlenda andstæðinga. Ég tala ekki um þá stemningu sem myndaðist þegar landsliðið okkar keppti á EM í fyrra.

Ef þessar tvær birtingarmyndir á því hvernig keppnisskap okkar Íslendinga kemur fram eru bornar saman þá kemur í ljós að það sem skilur þessar tvær tegundir að eru forsendurnar. Það að vinna Monopoly, að hafa sett fjölskylduna á hausinn, verða ríkari en bankinn og eiga allar götur og fyrirtæki á spilaborðinu eða að verða gáfaðasti fjölskyldumeðlimurinn eftir nokkrar umferðir í Bezzerwizzer byggist á forsendum sem eru einstaklingsmiðaðar og hefur ekkert með sameiginlega hagsmuni að gera. En að stefna að því að verða betri liðsheild með sameiginlegt markmið, skýra framtíðarsýn og meðvitund um að því takmarki er ekki náð nema með sameiginlegu átaki, þrautseigju og stífum æfingum, það er göfugt verkefni sem flestir ættu að vera sammála um að nauðsynlegt sé að stefna að.

Nú ætla ég að leyfa mér að nota aðra tilvitnun, sem Martin Luther King Jr. notaði í ræðum sínum og eiga rætur sínar að rekja í 13. Davíðs­sálm:

„Hve lengi“ ætla Íslendingar að keppa hver gegn öðrum í stað þess að vinna saman?

„Hve lengi“ ætla Íslendingar að rífast um framtíð Íslands án þess að komast að niðurstöðu?

„Hve lengi“ ætla Íslendingar að læra ekki af mistökunum?

Skýra framtíðarsýn vantar

Ef það er eitthvað sem okkur Íslendinga vantar til þess að verða betri þjóð þá er það skýr framtíðarsýn. 40 ára markmið í stað fjögurra ára markmiða sem aldrei nást því kjörtímabil eftir kjörtímabil breytast markmiðin og öll möguleg kosningaloforð eru svikin. Ég er ekki að ráðast á einn einasta stjórnmálaflokk eða eina sérstaka manneskju. Ég er í raun aðeins að gera mitt besta til þess að biðja fólk um að staldra við í smá tíma og spyrja sig, hvað get ég gert til þess að nágranna mínum, öðru fólki en sjálfum mér, líði betur og gangi betur?

Það segir í góðri bók: „Keppið eftir kærleikanum“; ef þú kannast ekki við bókina gúglaðu þá þessa setningu. En þessi setning segir allt sem segja þarf. Kærleikur er framkvæmd, ekki eingöngu tilfinning. Framkvæmd sem gerð er í kærleik felur oft í sér að maður þurfi að fórna eigin hagsmunum, verðmætum tíma, fjármunum og eignum. Hverju erum við að keppast eftir? Erum við að keppast eftir því að vera ríkari, valdameiri svo að þegar spilið er búið séum við búin að setja alla fjölskylduna á hausinn og skilja eftir sviðna jörð? Eða erum við að keppast eftir því að verða betri (besta lið í heimi), sem hefur það í för með sér að við þurfum að hugsa sem heild en ekki sem einstaklingar? Að hafa sameiginlega framtíðarsýn með viljann til að gera það sem þarf til að ná því eina markmiði að verða betri þjóð og í leiðinni betri manneskjur?

Í sömu góðu bók segir: „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað.“ Þú, kæri Íslendingur, ert í skuld, skuld við náunga þinn, að elska hann eins og sjálfan þig. Alveg eins og landsliðsmaður er í skuld gagnvart liði sínu, sem sver liðinu hollustueið að vinna gagngert í því að hjálpa liðinu að ná markmiðinu, framtíðarsýninni. Fyrir mér er framtíðarsýn meira en það markmið að ná hagvexti. Það er auðvitað mikilvægt og nauðsynlegt að hlúa að okkar viðkvæma hagkerfi en lífið er meira en peningar og ég trúi því einlæglega að ef við hlúum að bættum samskiptum, sameiginlegri framtíðarsýn og sameiginlegu átaki þá verði uppskeran glæsileg. Ég á mér draum, draum um betra Ísland. Sýnum kærleika í verki og keppumst eftir kærleikanum.

 

Höfundur er guðfræðinemi.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×