Skoðun

Ástkæra ylhýra króna. Eitrað ástarsamband

Ingimundur Gíslason skrifar




Íslendingar elska gjaldmiðil þjóðarinnar, íslenska krónu. Og sú mikla ást, sem meir og meir ber með sér einkenni þráhyggju, veldur efnahag okkar allra sem í landinu okkar búa miklu tjóni. Gott dæmi um það eru vextir á Íslandi sem eru miklu hærri en bjóðast í löndunum í kringum okkur. Margir stjórnmálamenn vilja ríghalda í íslenskan gjaldmiðil. Þeir vita sem er að mistök þeirra við fjármálastjórn ríkisins má alltaf leiðrétta með því að lofa gengi krónunnar að rúlla.

Nú er Salek nýtt töfraorð yfir samningakerfi sem á leiða til stöðugleika í landinu með hóflegum launahækkunum. Hingað til hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að þetta fyrirkomulag muni lukkast eins og menn vonast til. Til þess að Salek gangi upp þarf að ríkja traust á milli aðila og einnig þurfa menn að bera talsvert traust til þess gjaldmiðils sem notaður er við samningagerðina. Eftir margra áratuga bitra reynslu treysta fáir, þrátt fyrir háleitar hugástir, íslensku krónunni og því fer sem fer. Aðalatriðið er því að vera alltaf á undan öllum hinum í höfrungahlaupi kjarasamninga. Þannig gengur þetta koll af kolli og almenningi blæðir þegar gengi krónunnar að lokum fellur.

Nú er nýtt höfrungahlaup að hefjast og eru flugvirkjar fyrstir að taka sér stöðu í rásmarkinu. Aðrir undirbúa þátttöku sína.

Bráðum mun hátt láta í Hruna.

 

Höfundur er augnlæknir.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×