Enski boltinn

Býður öllum stuðningsmönnunum sem ferðast til Southampton upp á bjór

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mathias „Zanka“ Jørgensen er í gjafastuði um jólin.
Mathias „Zanka“ Jørgensen er í gjafastuði um jólin. vísir/getty
Danski varnarmaðurinn Mathias „Zanka“ Jørgensen ætlar að bjóða öllum stuðningsmönnum Huddersfield Town sem ferðast til Southampton til að fylgja liðinu upp á drykk. Með þessu vill hann þakka þeim fyrir frábæran stuðning á tímabilinu.

Stuðningsmenn Huddersfield þurfa að ferðast um 760 kílómetra til að sjá sína menn spila á móti Southampton á Þorláksmessu. Huddersfield fékk úthlutað tæplega 2600 miðum á leikinn.

Þeir stuðningsmenn sem gera sér ferð til Southampton fá úttektarmiða sem þeir geta skipt út fyrir drykk á næsta heimaleik Huddersfield. Hann er gegn Stoke City á öðrum degi jóla.

Talið er að Jørgensen gæti þurft að punga út tæpum 1,2 milljónum króna fyrir þetta jólagóðverk sitt.

Huddersfield situr í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 21 stig. Nýliðarnir eru sex stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×