Enski boltinn

Nær Arsenal að hefna ófaranna? | Myndband

Dagur Lárusson skrifar
Nítjánda umferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram um helgina en fyrsti leikur umferðarinnar er stórleikur Arsenal og Liverpool.

Fyrri viðureign liðanna fór fram á Anfield í ágúst þar sem Liverpool tók Arsenal í kennslustund og vann leikinn 4-0.

Arsene Wenger vill ólmur hefna ófaranna á Anfield með sigri en það verður þó hægara sagt en gert þar sem Liverpool hefur aðeins tapað tveimur leikjum á þessu tímabili í deildinni.

Það hefur ekki gengið nógu vel hjá Arsenal upp á síðkastið en liðið gerði m.a. annars jafntefli við Southampton og West Ham í síðustu viku. Skytturnar náðu þó að krækja í þrjú stig gegn Newcastle í síðustu umferð og sitja nú í fimmta sæti deildarinnar með 33 stig.

Síðasti leikur Liverpool var gegn Bournemouth síðastliðinn sunnudag þar sem þeir rauðklæddu skoruðu fjögur mörk framhjá lærisveinum Eddie Howe. Þetta var fyrsti sigur Liverpool í þremur leikjum en þar á undan hafði Liverpool gert jafntefli við Everton og West Brom.

Bæði lið eru í mikilli baráttu um meistaradeildarsæti á þessari leiktíð og þess vegna má hvorugt liðið við því að tapa stigum en með sigri getur Arsenal komist yfir Liverpool, upp í fjórða sætið.

Upphitunarmyndband fyrir þennan leik má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×