Enski boltinn

Giggs gagnrýnir United: Ég benti liðinu á bæði Mbappe og Jesus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Giggs ræðir við Louis van Gaal.
Ryan Giggs ræðir við Louis van Gaal. Vísir/Getty
Ryan Giggs gagnrýnir Manchester United í nýju viðtali sem birtist í The Times í dag. Giggs lék með liðinu í 24 ár og var svo í þjálfarateymi liðsins til 2016.

Á meðan að Giggs var í þjálfarateymi Louis van Gaal fylgdist hann vel með ungum leikmönnum víða um heim fyrir félagið. Og hann segir að Van Gaal og aðrir hjá United hafi sofið á verðinum.

„Ég fylgdist með Gabriel Jesus fyrir þremur árum síðan. Ég horfði á Mbappe í heilt ár. Ég horfði á þessa leikmenn með njósnara og þetta var ekkert flókið - semjið við þessa drengi. Þeir hefðu kostað fimm milljónir punda eða eitthvað álíka. Það hefði verið hægt að kaupa þá og lána þá svo til baka til þeirra félaga,“ sagði Giggs meðal annars í viðtalinu.

Mbappe sló í gegn með Monaco á síðustu leiktíð og er nú á mála hjá PSG eftir viðburðarríkt sumar. Jesus hefur svo slegið í gegn sem leikmaður Manchester City.

Giggs hefur enn áhuga á að taka við liði og gerast knattspyrnustjóri. En hann vill ekki fara í neðri deildirnar á Englandi.

„Ég hef enga reynslu af neðri deildunum. Ég hef verið allt mitt líf í ensku úrvalsdeildinni - ekki bara sem leikmaður heldur einnig sem spilandi þjálfari og aðstoðarþjálfari.“

„Ég veit að ég var ekki tilbúinn þegar ég stýrði United [í fjórum leikjum þegar David Moyes var rekinn árið 2014] en ég er mun betur í stakk búinn fyrir starfið eftir tvö ár með Louis. Það var frábær reynsla.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×