Enski boltinn

Gerrard: Ég hef elst um tvö ár á sex mánuðum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Vísir/Getty
Steven Gerrard er kominn í nýtt hlutverk eftir að hafa lagt atvinnumannaskóna á hilluna, en hann þjálfar unglingalið Liverpool. Hann segist hafa elst um tvö ár á síðustu sex mánuðum.

„Ég tala aldrei um tímana þegar ég var að spila,“ sagði Gerrard í viðtali við The Times. „Ég er aldrei með myndbönd af mér að spila. Ef ég þarf að sýna þeim myndbönd þá eru þau af aðalliði Liverpool núna, eða einhverju öðru núverandi liði.“

„Þetta snýst um hvað er að gerast núna, ekki í gær. En ef það væri eitthvað myndband af mér sem ég héldi myndi gagnast þeim að sjá, þá að sjálfsögðu myndi ég sýna þeim það.“

Lið hans er á toppi unglingadeildarinnar eftir 11 leiki og hefur farið fram úr væntingum í vetur.

„Þeir voru mjög hljóðlátir til að byrja með. Ég held þeir hafi verið svolítið inni í skelinni á undirbúningstímabilinu, en þeim er farið að líða vel núna og sjá mig sem alvöru þjálfara.“

Gerrard spilaði fyrir Liverpool í sautján ár, frá 1998-2015, og er goðsögn í lifandi lífi innan félagsins.

„Ég þurfti að sýna þeim að ég tek þessu alvarlega og er með metnað fyrir starfinu.“

„Ef ég kæmi til vinnu 1-2 daga í viku þá væri ég ekki að reyna að hjálpa liðinu almennilega og þeir ættu fullan rétt á því að treysta mér ekki. Ég varð að vinna fyrir því að þeir treystu mér og gæfu mér allt sem ég væri að biðja um.“

Margir leikmenn hafa farið yfir í þjálfun þegar þeir hætta að spila, en starfið er ekki eins mikill dans á rósum og Gerrard hélt í fyrstu.

„Sem leikmaður þá get ég farið að hugsa um eitthvað annað eftir leik. Þú getur ekki gert það sem þjálfari, og það er aðal munurinn. Sem stjórinn þarftu að hugsa um hvað fór vel, hvað gekk illa, hvaða leikmenn þarf að taka til hliðar og þjálfa sérstaklega í þessari viku, hverjum á að hrósa.“

„Ég hef meiri virðingu fyrir stjórum og þjálfurum í dag heldur en þegar ég var að spila. Ég vissi ekki hversu mikið starfið fæli í sér,“ sagði Steven Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×