Innlent

24 stiga frost á Mývatni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er þó eitthvað í það að frjósi í hverunum.
Það er þó eitthvað í það að frjósi í hverunum. Vísir/Getty
Það verður bjart og fallegt veður víða um land í dag - en frostið verður heldur ekki langt undan. Það verður frá 3 stigum við suðurströndina upp í 15 stig í innsveitum norðanlands. Í froststillum þar sem blæs hægt af hálendinu getur frost orðið enn meira, til dæmis mældist tæplega 24 stiga frost við Mývatn í nótt.

Þá verður fremur hæg austlæg eða breytileg átt í dag en austan strekkingur undir Eyjafjöllum. Léttskýjað en dálítil él við sjávarsíðuna Norðaustan- og Austanlands. Að sama skapi verður norðaustan strekkingur norðvestantil og með suðurströndinni annað kvöld, alveg fram á Gamlárskvöld, en hæg norðaustan eða breytileg átt annarsstaðar.

Skýjað með köflum og dregur heldur úr frosti en él nyrst og austantil á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Norðaustan 5-13 m/s, hvassast við sjávarsíðuna og léttskýjað. Heldur hægari og dálítil él austan- og norðaustanlands. Vægt frost en niður í 10 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.

Á sunnudag (gamlársdagur):

Fremur hæg norðaustan átt en 8-13 á Vestfjörðum og með suðausturstöndinni. Dálítil él norðan- og austanlands, en bjart sunnan heiða. Austan 2-6 suðvestantil á landinu um kvöldið og léttskýjað. Frost 2 til 10 stig.

Á mánudag (nýársdagur):

Norðlæg átt, víða 3-8 m/s en 8-13 sunnanlands um kvöldið. Stöku él um landið norðaustanvert, en úrkomulaust sunnantil fram á kvöld. Áfram frost um allt land.

Á þriðjudag:

Allhvöss eða hvöss austanátt og snjókoma eða slydda sunnanlands en þurrt að kalla fyrir norðan. Hiti um og yfir frostmarki syðst en áfram frost í innsveitum norðanlands.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir strekkings eða allhvassa austlæga átt með éljum fyrir norðan og austan, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Víða vægt frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×