Innlent

Efna til söfnunar fyrir Fannar Frey sem slasaðist alvarlega í bílslysi

Birgir Olgeirsson skrifar
Fannar Freyr Þorbergsson er sagður mikill baráttujaxl sem hefur nú þegar náð mun meiri árangri en læknar gerðu ráð fyrir.
Fannar Freyr Þorbergsson er sagður mikill baráttujaxl sem hefur nú þegar náð mun meiri árangri en læknar gerðu ráð fyrir. Facebook
Fannar Freyr Þorbergsson, 28 ára gamall Ísfirðingur, lenti í alvarlegu bílslysi 19. október síðastliðinn þar sem hann hlaut skaða á mænu og er fram undan löng og ströng endurhæfing.

Ísfirðingar og nærsveitungar hafa nú efnt til söfnunar til að styðja við Fannar. Að baki þessari söfnun standa forsvarsmenn líkamsræktarstöðvarinnar Studio Dan á Ísafirði en söfnunin gengur undir heitinu Gerum Gagn.

Um er að ræða stöðvaæfingagleði sem fer fram í Studio Dan á Þorláksmessu og kostar 2.000 krónur að vera með. Rennur upphæðin sem kemur inn óskipt til Fannars.

Fannar slasaðist alvarlega í bílveltu í Álftafirði seint að kvöldi 19. október síðastliðinn. Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum höfðu verið kallaðar út til að leita að Fannari sem hafði verið á leið til Ísafjarðar en ekkert spurst til.

Bíllinn fannst utan vegar í Álftafirði og var Fannar fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Fannar síðan á Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík.

Á Facebook-síðu söfnunarinnar kemur fram að það sé dýrt að slasast og vera veikur á Íslandi og þess vegna efnt til þessa átaks. Fannar er þar sagður mikill baráttujaxl og þegar búinn að ná meiri árangri en læknar gerðu ráð fyrir.

Nánar um átakið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×