Skoðun

Evrópa, vaknaðu og lyktaðu af kaffinu

Hagai El-Ad skrifar
Evrópskir utanríkisráðherrar sem sækja morgunverðarfund Binyamins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, kynnu að láta hugann reika þegar heiðursgesturinn fer enn og aftur að tala um Íran og væla í sjálfhverfu um „tvískinnung“ og „eina lýðræðisríkið í Mið-Austurlöndum“. Sumum morgunverðum er erfiðara að kyngja en öðrum.

Og þannig, í ljósi ákveðinnar ræðu ákveðins Bandaríkjaforseta, gæti hugur ráðherranna kannski reikað til hertekinnar Palestínu. Þeir gætu spurt sig spurninga sem ísraelskar ríkisstjórnir hafa sí og æ neitað að svara, svo sem: í ljósi þess hvernig Ísrael herðir tak sitt á Vesturbakkanum, hvers vegna hefur þá ríkisstjórn Netanyahus yfirhöfuð fyrir því að kveðast styðja „friðarferlið“? Og er stefna Ísraels um að hrekja Palestínumenn frá hluta hernumdu svæðanna ekki stríðsglæpur? Hversu margar klukkustundir af rafmagni hyggst Ísrael skammta í næstu viku þeim tveimur milljónum Palestínumanna sem búa rétt við bæjardyrnar, á Gazastöndinni? Og, burtséð frá lúðraþytnum vegna sendiráðsins, hvað um þá 370.000 Palestínumenn sem búa í Austur-Jerúsalem og hafa ekki notið neinna stjórnmálalegra réttinda frá því að Ísrael innlimaði borgarhlutann fyrir hálfri öld?

Maður gæti orðið þurr í munni af öllum þessum ósvöruðu spurningum og því horft sér nær. Því ef Ísrael heldur áfram að herða tak sitt á öllum Vesturbakkanum, hvers vegna tekur þá Evrópa alvarlega þau fáu skipti þar sem Ísrael kveðst í orði fylgjandi „friðarferlinu“? Og þar sem stefna Ísraela um að hrekja Palestínumenn með valdi frá hluta hernumdu svæðanna er sannarlega stríðsglæpur, hverjar eru þá mótaðgerðir Evrópusambandsins í reynd? Og hversu mikið lengur mun lygin um „ísraelskt lýðræði“ samhliða 21. aldar útgáfu af kerfisbundinni kúgun og eignasviptingu vera samþykkt við bæjardyr Evrópu?

Hér er koffeinsprauta: það getur verið gott og blessað að verða sífellt fyrir vonbrigðum með aðra á meðan maður stendur álengdar og horfir á einhliða aðgerðir verða að gerðum hlut. En það er Evrópa sjálf sem hefur grafið undan trúverðugeika sínum með því að „lýsa yfir áhyggjum“ af því að „grafið sé undan möguleikum“ á að bundinn sé endi á hernámið. Hversu lengi er hægt að grafa undan möguleika áður en hann er endanlega jafnaður við jörðu af ísraelskri jarðýtu?

Í ljósi grímulausrar stefnu Bandaríkjanna og framferðis Ísraels getur Evrópa aftur á móti ekki lengur látið, með nokkrum trúverðugleika, eins og stefnan sem hún framfylgir gangi út á að styðja „friðarferli“ undir forystu Bandaríkjanna. Sá augljósi uppspuni grefur undan baráttu Palestínumanna fyrir frelsi, baráttu ísraelskra mannréttindasinna fyrir réttlæti og framtíðarsýn Evrópu með grunngildi laga, mannréttinda og lýðræðis að leiðarljósi.

Morgunverðargesturinn á mánudaginn hæðist opinskátt að þessum gildum, samt er hann á einhvern hátt hingað kominn- hvítir dúkar, croissant og ráðamenn hlýða kurteislega á. Á fundi í Búdapest í júlí 2017, sem forsætisráðherrar Tékklands, Póllands og Slóvakíu sóttu, sagði Netanyahu aftur og aftur að Evrópusambandið væri „galið“ fyrir að vera „eina ríkjasambandið í heiminum sem bindur samband sitt við Ísrael... stjórnmálalegum skilyrðum.“ Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands , tók frá sjónarhóli aðildarríkis ESB undir þetta. Búdapest og Jerúsalem virðast æ meir deila sömu gildum þessa dagana.

Sem helsti viðskiptafélagi Ísraels, hefur Evrópa allt það vægi sem hún þarf til að upplýsa ísraelska kjósendur um að þeir geti ekki haft bæði í senn, notið hlunninda sem þeir réttlæta með þeim lýðræðislegu gildum sem þeir kveðast aðhyllast og traðkað svo samtímis á þessum sömu gildum. Netanyahu leggur nú meira undir, og reynir að nýta sér vægi þeirra þöggunaráhrifa sem falskar ásakanir hafa þegar andstöðu við viðvarandi hernám er spyrt saman við „hvatningu til gyðingahaturs“, um leið og hann hagnast á klofningi í Evrópu. Hann stefnir þannig að því að sveigja jafnvel hjá þeim hófsömu og árangurslausu skilyrðum sem hafa ríkt til þessa. Og hann eða eftirmaður hans munu bera ísraelskum kjósendum þann ávinning á torg til marks um að Ísrael geti sannarlega haft hlutina á báða vegu.

Með því að halda áfram að lýsa „þungum áhyggjum“ í stað þess að grípa til aðgerða, hefur Evrópa ákveðið að leyfa öðrum að vera í fararbroddi og í reynd samþykkt afleiðingarnar sem ættu að vera öllum ljósar. Ameríka Trumps er víðs fjarri öllu þessu, bæði landfræðilega og siðferðislega: hún er varin hafi og hikar ekki við að skipa sér á bekk með Pútín, Duterte, Orbán – og Netanyahu. Á meðan Ameríka er langt í burtu er allt þetta að gerast í næsta nágrenni við Evrópu. Þó ekki væri nema út frá eigin hagsmunum, getur Evrópa þá staðist afleiðingar þess að grafa undan þeim gildum sem lágu til grundvallar verkefnisins sem beið hennar í kjölfar seinni heimsstyrjaldar?

Það er löngu kominn tími til að hætta að bíða eftir Washington, Moskvu, Búdapest eða Jerúsalem. Það er kominn tími til að rísa upp til varnar mannréttindum, að krefjast einskis minna en að bundinn sé endi á hernámið og skýrt verði frá því svart á hvítu hvernig leiðtogar Evrópu muni í verki hafna þeirri óásættanlegu stöðu sem ríkt hefur á svæðinu síðastliðin fimmtíu ár. Um þetta verkefni ríkir einhugur sem nálgast heimsvísu og áréttaður var með ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2334 á síðasta ári þar sem sýnd var samstaða með Palestínumönnum, þeim Ísraelum sem eru sama sinnis og með alþjóðlegum málsaðilum nær og fjær. Þessu þarf að ná fram með raunverulegri breiðfylkingu þar sem ofbeldi er ekki beitt en mannréttindi og réttlæti eru höfð aðleiðarljósi. Evrópa, vaknaðu.

Hagai El- Ad er framkvæmdastjóri ísraelsku mannréttindasamtakanna B’Tselem. Fundurinn sem vitnað er til var haldinn  11. desember síðastliðinn. Greinin birtist í vefritinu +972 Magazine. Einar Steinn Valgarðsson þýddi með góðfúslegu leyfi höfundar.




Skoðun

Sjá meira


×