Skoðun

Kennarasamband í kór

Halldóra Guðmundsdóttir skrifar
Það eru einstök forréttindi að fá að vinna með börnum og ég valdi mér kennslu að starfi því mér fannst það einfaldlega besta leiðin til þess að taka virkan þátt í samfélaginu. Leikskólinn er einstakt samfélag sem er nærandi og skapandi og býður alltaf upp á eitthvað óvænt. Þar er kærleikurinn undirstaða svo að öllum líði vel, og starfsfólk gefur bæði af sér og fær margfalt til baka. 

Það öfluga starf sem fer fram á leikskólum landsins er í raun stórmerkilegt miðað við þann skort sem skólastigið hefur búið við. Þar, rétt eins og í skólakerfinu öllu er tilfinnanleg vöntun á kennurum og æ erfiðara gengur að manna stöður. Þrátt fyrir að kennarar séu eldhugar og fullir af metnaði og útsjónarsemi verður starfið stöðugt erfiðara og flóknara og afleiðingin er of lítil nýliðun í greininni. Barnahópurinn er fjölbreyttari en áður, þarfirnar fleiri og engan veginn nægt fjármagn til staðar. Mannekla og vinnuálag samhliða skorti á undirbúningi kennara gerir þeim ekki fært að mæta þessum áskorunum sem skyldi. Þessu verðum við að breyta.  

Góður aðbúnaður lykilatriði

Það er óásættanlegt hvað mörgum börnum líður illa í skólanum, námslega og félagslega. Lesskilningur þeirra hefur aldrei verið minni og börn innflytjanda ná ekki tökum á tungumálinu og flosna því oft upp úr námi.  Við þurfum að bregðast við þessu vandamáli í skólanum og þar eru vel menntaðir kennarar og góður aðbúnaður lykill að lausninni. 

Við þurfum að setja súrefnisgrímuna fyrst á kennarana, svo þeir séu færir um að hjálpa öðrum. Við þurfum því að tryggja þeim gott starfsumhverfi og mannsæmandi laun. Starfið er frábært en vegna gríðarlegrar streitu og bágra kjara hafa kennarar á öllum skólastigum hrökklast frá. Með bættu starfsumhverfi löðum við einnig til okkar ungt og ferskt fólk, sem hefur áhuga á að leggja þetta mikilvæga starf fyrir sig.



Sameinuð erum við sterkari

Kennarastéttin þarf að starfa betur saman og þar er Kennarasambandið í lykilhlutverki. Aðildarhópar eru misstórir og ekki allir jafnvel í stakk búnir að halda uppi öflugri kjarabaráttu. Til dæmis hafa tónlistarkennarar verið í slæmri stöðu vegna þess hversu fáir þeir eru og svo hafa stjórnendur ekki verkfallsrétt. Saman erum við sterkari!

Kennarasambandið þarf að starfa sem einn kór: Við þurfum að nýta allar raddirnar til að skapa fallegan og öflugan samhljóm.

Áfram kennarar!



Höfundur er aðstoðarleikskólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×