Lífið

Dreymir um verkfærakistu

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Halldór Heimisson útskrifast úr rafvirkjun um jólin. Hann segir gefandi að sjá verk sín tala og eiga þátt í skapandi heildarmynd og hönnun húsa og fyrirtækja.
Halldór Heimisson útskrifast úr rafvirkjun um jólin. Hann segir gefandi að sjá verk sín tala og eiga þátt í skapandi heildarmynd og hönnun húsa og fyrirtækja. MYND/EYÞÓR
Halldór Heimisson útskrifast sem rafvirki um jólin. Hann segir rafvirkjun heillandi fag með mikla atvinnu- og tekjumöguleika, og dreymir um verkfæratösku, rafmagnspenna og borvél í jólagjöf.

„Pabbi minn og afi eru báðir rafvirkjameistarar svo þetta lá alltaf fyrir,“ segir Halldór Heimisson sem um jólin útskrifast sem rafvirki úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

„Ætli handlagni liggi ekki í erfðum?“ veltir Halldór fyrir sér. „Við erum allavega allir handlagnir og ég var ungur farinn að dútla með köllunum á verkstæðinu og fylgjast með þeim teikna og vinna í rafmagninu. Maður þarf að vera handlaginn í rafvirkjun því hún útheimtir bæði grófa og fína vinnu.“

Halldór er einnig útlærður í tölvuviðgerðum og með atvinnuleyfi sem leigubílstjóri.

„En það á ekki við mig að sitja fastur inni á skrifstofu fyrir framan tölvu dagana langa. Ég vil hafa líf í tuskunum og nóg fyrir stafni í fjölbreyttum verkefnum á mismunandi stöðum í stað þess að vera fastur yfir sama starfanum á sama stað,“ segir Halldór, sem sá marga kosti við það að læra rafvirkjun.

„Rafvirkjun er stórskemmtilegt og fjölbreytt fag. Hún kallar meðal annars á verksvit, spennandi teikningu og skapandi hönnun raflagna og lýsingu sem við lærum í þrívíddarforriti í tölvum skólans,“ segir Halldór sem tilheyrir glæsilegum hópi 23 verðandi rafvirkja sem útskrifast nú um jólin.

„Á liðnum árum hefur verið vöntun á íslenskum fagmönnum og vonandi að menn séu að sinna kallinu og drífa sig meira til náms, enda er nóg að gera og fínn peningur í faginu. Starfið er fjölbreyttara en margur gerir sér grein fyrir og atvinnumöguleikarnir miklir. Námið veitir alþjóðleg starfsréttindi og hægt að vinna hvar sem er í heiminum eftir að hafa menntað sig til rafvirkja hér. Sú menning að Íslendingar þurfi allir að sækja sér háskólamenntun hefur verið ríkjandi of lengi og er ekki endilega það besta fyrir íslenskt þjóðfélag,“ segir Halldór og vill gera iðnaðarmönnum hærra undir höfði.

„Iðnaðarmenn eru oft hálaun­aðir, eins og komið hefur fram í kjarakönnunum, og oft með mun hærri laun en margir með háskólamenntun.“

 

Halldór segir atvinnumöguleika rafvirkja mikla og að námið veiti alþjóðleg starfsréttindi. Því geti íslenskir rafvirkjar unnið hvar sem er í heiminum.MYND/EYÞÓR
Hefur áhrif og ábyrgð

Faðir Halldórs er Heimir Jón Guðjónsson. Hann stofnaði fyrirtækið Rafvirkni en seldi það fyrir nokkrum árum og starfar nú sem kennari við rafvirkjadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

„Ég vinn hjá gamla fyrirtækinu hans pabba, ásamt því að taka að mér sjálfstæð verkefni fyrir annað fyrirtæki, keyra leigubíl aðra hverja helgi og vera einstæður faðir. Það er því nóg að gera,“ segir Halldór kátur og fyrir nokkru kominn út á vinnumarkaðinn sem rafvirki þar sem rafvirkjanemar fara á starfssamning meðfram námi í skólanum.

„Við erum því færir í flestan sjó þegar að útskrift kemur. Skemmtilegast við starfið finnst mér að koma í tóma íbúð, draga í hana alla víra sem þarf, setja upp tengla og rofa, búa til rafmagnstöflu og koma upp ljósum. Það er skapandi verkefni og gefandi að sjá eitthvað verða úr hlutunum. Árangur erfiðisins stendur svo áfram sem sjálfstætt verk manns í húsinu,“ segir Halldór sem lagt hefur rafmagn í heilu blokkirnar og er stoltur af því.

„Það fylgir því alveg sérstök tilfinning að setja brag sinn á heildarverkið, í stað þess að vera hluti af tannhjóli sem hægt er að skipta út með lítilli fyrirhöfn. Sem rafvirki hefur maður bæði áhrif og ábyrgð.“

Halldór segir rafvirkja þurfa að vera vel búnir verkfærum.

„Góð verkfærakista er mikilvæg og þær fást víða, en mig dreymir um Klauke-tösku frá Reykjafelli. Þær innihalda allt sem rafvirki þarfnast. Ég bý reyndar vel að því að geta stolist í verkfærin hans pabba en vildi gjarnan fá góða borvél í jólagjöf, sem og rafmagnspenna til að mæla straum. Líka skrúfvél til að festa ljós, tengla og rofa þar sem ekki þarf mikið afl, og ýmsa mikilvæga rafmagnsmæla,“ segir hann fullur tilhlökkunar fyrir jólunum, útskriftinni og framtíðinni.

En skyldi eitthvað einkenna rafvirkja? „Auðvitað er erfitt að setja þá alla undir sama hatt því við strákarnir erum allir mismunandi. Þó er óhætt að segja þá vera góða og trausta gæja með fagmennsku að leiðarljósi og ljúfa og góða samskiptahæfni,“ segir Halldór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×