Lífið

Húsverðir með hjartað á réttum stað

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Óhemju mikið af jólaskrauti beið þeirra félaga Eriks og Guðjóns í ótal kössum við jólatréð.
Óhemju mikið af jólaskrauti beið þeirra félaga Eriks og Guðjóns í ótal kössum við jólatréð. Visir/Eyþór
Þeir eru miklir vinir, segjast bæði rífast og skemmta sér eins og hjón. Fréttablaðið/Eyþór
Fáir taka eftir þeim. Húsvörðunum. Sem þó gegna mikilvægu hlutverki. Mikilvægara en margan grunar. Í einni stærstu verslunarmiðstöð landsins er undirbúningur undir fyrstu helgi í aðventu í fullum gangi. Húsið er nú þegar orðið ljósum prýtt en enn er verið að setja upp risastórt jólatréð. Erik Pálsson húsvörður hefur sérstaklega gaman af þessum árstíma. Það gleður hann að sjá verslunarmiðstöðina færða í jólabúning. Hann er enda svolítið jólabarn og á afmæli í dag, einmitt daginn sem kveikt er á trénu.

„Við kveikjum á afmælisdaginn minn, 2. desember. Það er auðvitað mjög skemmtileg tilviljun. Þetta er hreinlega uppáhaldstími ársins. Við fáum hingað barnakór og það er góður andi í húsinu. Það er tveggja daga vinna að setja upp jólatréð. Það eru tveir menn í verkinu,“ útskýrir Erik en á gólfinu við tréð eru ótal kassar fullir af skrauti, við tréð stendur skæralyfta enda er það margra metra hátt og ekki einfalt verk að skreyta.





Erik er með hjartað á réttum stað, það vill síðan svo til að það er einmitt slagorð vinnustaðarins. Kannski hugmyndin hafi komið vegna innrætis hjálpfúsra húsvarða. Fréttablaðið/Eyþór
Nítjándu jólin sem húsvörður

Erik hefur unnið sem húsvörður í húsinu í átján ár. Þegar hann hóf störf þótti ekki fínt að það sæist til húsvarðanna sem voru við störf. Þeir unnu því um kvöld og nætur.

„Þetta eru nítjándu jólin mín því ég byrjaði hér stuttu fyrir jól árið 1999. Þá var vinnufyrirkomulagið fyrir jól öðruvísi. Við unnum um kvöld og fram á nótt við að gera allt klárt fyrir jólin,“ segir Erik. „Við vorum með lifandi tré og því fylgdi mikil vinna. Það þurfti að huga vel að því og þrífa upp barrið. En þetta tré! Það er hins vegar mun meiri vinna við að setja það upp. Það er svo ótal mikið af skrauti og serían er sett utan um með litlu millibili.“





Þótt annirnar séu miklar fyrir jól er engin slökun í vændum í janúar. Því þá byrja útsölur. „Þá er mikið fjör og brjálað að gera. Við endum útsölurnar á götumarkaði, við Guðjón setjum upp markaðinn og tökum svo allt saman niður aftur. Þetta eru tarnir tvisvar á ári.“

Guðjón tekur undir með Erik félaga sínum. „Þetta er manneskjulegra í dag. Það þykir allt í lag að það sjáist til okkar við vinnu. Það þýðir að það er meira rask af því sem við erum að gera. En þetta er bara hluti af lífinu, lifandi og dýnamískt. Álagið er mikið í smá tíma fyrir jólin. Það verður stundum spennufall fyrir jól. Það besta við þennan æsing allan er að það er ekki hægt að láta sér leiðast. Það er enginn dagur eins hjá okkur. Allt þetta skraut sem þú sérð, það sjáum við um. Frá a til ö.“





Aprílgabbið þótti vel heppnað.
Gabb húsvarðanna sló í gegn

Verkefnin eru af ýmsum toga. „Allt sem menn búa til getur bilað. Við erum fyrstir á vettvang. Við athugum fyrst hvort við getum gert við það sem er úr lagi, ef ekki, þá könnum við hver gæti mögulega gert það. Við aðstoðum líka fólk sem lendir í vandræðum með hitt og þetta, sjáum um að allt sé þokkalega í röð og reglu í húsinu,“ segir Guðjón.

Þeir Erik og Guðjón hafa tekið upp á ýmsu í sínu starfi. Eitt uppátækjanna vakti mikla athygli þann 1. apríl í fyrra.

„Við fórum um bílastæðin og settum sektarmiða á bílana. Þetta var 3.000 króna sekt en á henni kom fram að hægt væri að fá gjaldið lækkað niður í 500 krónur með því að greiða sektina umsvifalaust á þjónustuborði. Flestir létu blekkjast og héldu þangað í von um afslátt. Þetta var síðan myndað í bak og fyrir í laumi og var auðvitað sárasaklaust aprílgabb. Við Guðjón höfum svo staðið í svolitlu stappi við nemendur Verslunarskólans sem hafa lagt í bílastæði á stað sem okkur hugnast ekki. Við höfum gert það í góðu en við viljum hafa nemendur á ákveðnu svæði. Við ákváðum því að fara þangað með nokkra sektarmiða, við yrðum að taka fyrir nokkra Verslinga. Svo komu tvær stúlkur aðvífandi. Önnur stúlkan tók miðann af bílrúðunni á meðan ég var að sekta næsta bíl og rökræddi við mig. Það sló alveg í gegn. Þær fóru svo að fá afslátt á þjónustuborðinu þar sem Baldvina markaðsstjóri tók á móti þeim og hélt gabbinu áfram í smá tíma,“ segir Erik en þeir sem létu blekkjast fengu þó eitthvað fyrir sinn snúð, bíómiða. 

Aprílgabbið þótti síðan svo vel heppnað að það fékk íslensku markaðsverðlaunin, Lúðurinn, á síðasta ári.





Sprakk á ellinöðrunni

Bæði Erik og Guðjóni er mjög minnisstætt þegar þeir aðstoðuðu einn fastagesta hússins. Ágæta konu sem þeim þykir vænt um. „Við höfum lagt okkur alla fram um það að aðstoða fólk í neyð. Neyðin er mismikil auðvitað. Það kemur ágæt kona hingað mjög oft. Hún kemur keyrandi á ellinöðru, svona rafmagnshjólastól á stærri dekkjum, alla leið úr Hátúni. Hún er rosalega dugleg, er lömuð öðrum megin í líkamanum. Þrátt fyrir það þá kemur hún oft. Henni finnst gott að koma hingað, mögulega til að vera innan um fólk. Einn daginn lenti hún í því að það sprakk á einu hjólinu. Þá var hún föst og gat ekkert bjargað sér sjálf. Þá tókum við til okkar ráða. Félagar mínir tóku dekkið undan og gerðu við það á verkstæði sem er hér í húsinu. Konunni var hjálpað til síns heima á meðan það var gert. Ég fór svo í Hátúnið og sótti hana á Kringlubílnum þegar tækið hennar var tilbúið. Hún beið eftir mér í anddyrinu. Í dag þegar hún sér okkur, þá brosir hún alltaf til okkar. Hún verður innilega glöð þegar hún sér okkur, við erum vinir hennar,“ segir Erik.

Guðjón tekur undir. „Já, sumt gleymist og margt rennur saman. Það gerist svo margt hér. En vinkonu okkar á ellinöðrunni þykir okkur mikið koma til. Það eru þannig hlutir sem standa upp úr. Þegar við getum liðsinnt fólki svo um munar.“

„Svo er alls kyns minniháttar. Bílar fara ekki í gang á bílaplaninu. Þá getum við hjálpað. Erum með sérstaka græju sem þarf ekki að tengja við annan bíl og gefum start. Fólk heldur að það þurfi að greiða okkur eitthvað fyrir þessa þjónustu. En svo sannarlega ekki!“ segir Erik. „Slíkt kæmi ekki til greina, við leysum bara hlutina.“

Gestirnir eins og farfuglar

Erik líkir gestum í húsinu við fugla. „Þeir eru eins og farfuglar. Á veturna kemur gamla fólkið hingað. Það getur verið innan um fólk og verslað án þess að vera hrætt um að detta. Á Flórída er stundum talað um „snowbirds“ ferðalangana sem flykkjast til Flórída og eru að flýja vetur í eigin heimalandi. Það er svipað hér.“

Erik bendir á að í húsinu sé sérstakt samfélag. „Það eru margir fastagestir sem mynda samfélag. Fólk sem kemur hingað mjög oft og þekkir okkur og heilsar. Á morgnana koma til dæmis oft ljósmyndarar Morgunblaðsins í kaffi á Kaffitár. Þeim fylgja stundum íbúar úr grenndinni enda vita ljósmyndararnir alltaf það nýjasta í fréttum.“





Erik hefur starfað sem húsvörður í átján ár. Visir/Eyþór
Við fylgjumst með þeim óþekku

Á dögunum var greint frá því að á hverju ári hefði fundist óhugnanlegir hlutir, rottueitur, sígarettustubbar og ónýtt drasl í jólapökkum sem eru settir undir jólatréð og eru ætlaðir börnum sem búa við fátækt eða eiga um sárt að binda.

„Það er erfitt að eiga við þetta, það sem er hægt að gera er að opna pakkana. Þetta er ömurlegt og ég veit ekki alveg í hvaða spor fólk setur sig þegar það gerir svona og finnst það ef til vill fyndið. Það koma þúsundir pakka undir tréð og þeir eru örfáir sem svona innihald hefur fundist í. Það er auðvitað eitthvað brotið í fólki sem gerir svona,“ segir Erik.

Hann segir langflesta gesti hússins haga sér vel. „Það eru allir velkomnir hingað en ef þú hagar þér illa og lætur ekki segjast þá höfum við auga með þér. Sumum er meinað um aðgang í einhvern tíma. Það á við þegar menn taka til dæmis ekki tiltali eftir ærslagang og læti. Það er nú oft gaman hjá börnum og unglingum en þegar þau hlusta ekki og vilja ekki fara eftir reglum, þá þarf auðvitað að setja þeim mörk,“ segir Erik.





Guðjón starfaði sem þjónn í tuttugu ár áður en hann réð sig til starfa sem húsvörður. Fréttablaðið/Eyþór
Spennustigið hækkar

En hvernig skyldu gestir haga sér fyrir jólin? „Auðvitað er fólk pínu stressað, það hækkar aðeins spennustigið. Áður en ég byrjaði að vinna hér vann ég sem þjónn í tuttugu ár og er því öllu vanur. Einn og einn bræðir úr sér. En það eru fimm milljónir sem koma í húsið á hverju ári, maður man varla eftir þeim örfáu sem fóru vitlaust fram úr rúminu,“ segir Guðjón. 

Þeir Erik og Guðjón hafa starfað saman í öll þessi ár, eru þeir miklir vinir? Guðjón hlær við. „Já, við erum nánast eins og hjón. Við erum alltaf saman, alla daga, við tveir. Við bæði rífumst og skemmtum okkur.“

Öryggisverðir Kringlunnar eru oft undir miklu álagi. Hér er einn þeirra við vinnu. Halldór vildi ekki láta mynda sig, nóg væri áreitið. Fréttablaðið/Eyþór
Líf eins og í litlu þorpi

Halldór Pálsson, öryggisstjóri hússins, gengur fram hjá og er tekinn tali. Hann hóf störf sem öryggisvörður í Kringlunni árið 1996 og varð öryggisstjóri hússins árið 2008. Eins og þeir félagar Erik og Guðjón á hann langan starfsaldur að baki. Hann segir enda sömu sögu. „Það er auðvelt að festast hér í vinnu því enginn dagur er eins. Þetta er eins og lítið þorp. Og eins og í litlu þorpi á sér ýmislegt stað hér. Það eru þjófnaðir, veikindi, slys á fólki, týnd börn, týndir bílar eða munir,“ segir Halldór.

Þegar það koma upp veikindi eða hættulegar aðstæður segir Halldór mikilvægt að þeir gangi ekki í störf fagaðila. „Við köllum á lögreglu eða á sjúkrabíl, til þeirra fagaðila sem þörf er á. Ef að það koma upp hættulegar aðstæður þá verðum við að treysta okkar eigið öryggi fyrst. Annars er maður orðinn eitt fórnarlamb í viðbót. Við brúum bilið og hjálpum fólki þangað til rétta hjálpin berst. En ef við sjáum að við getum til dæmis stöðvað átök eða annað, þá gerum við það.“

Hann segist vanda sig við að dæma ekki fólk þegar það gerir mistök. Í svona stóru samfélagi koma reglulega upp þjófnaðarmál og málin tengjast allt frá átta ára gömlum börnum upp í 80 ára gamla ellilífeyrisþega. En við dæmum engan. Þetta eru fyrst og fremst bara manneskjur sem eru að gera mistök. Verður á. Eru ef til vill á slæmum stað í lífinu,“ segir Halldór. „Fyrst og fremst er lífið í Kringlunni fjölbreytt og hér sjáum við þverskurðinn af þjóðinni alla daga með öllum sínum margbreytileika.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×