Gagnrýni

Íslensk þjóðlög í tyrkneskum búningi: Og?

Jónas Sen skrifar
Plötuumslag Two Sides of Europe, Icelandic Folksongs Volume I
Plötuumslag Two Sides of Europe, Icelandic Folksongs Volume I

Tónlist
Ásgeir Ásgeirsson: Two Sides of Europe, Icelandic Folksongs Volume I
Stanga Music

Einu sinni var hér haldin myndlistarsýning þar sem framandi hlutum var skeytt við íslenskt landslag. Ég man sérstaklega eftir manni sem teymdi á eftir sér úlfalda einhvers staðar á Suðurlandi. Gott ef það voru ekki pálmatré á víð og dreif. Tilfinningin var eins og orðið hefðu náttúruhamfarir og jörðin hallast svo langt að Ísland hefði lent þar sem Miðausturlönd eru núna.

Tónlistarlega útfærslu þessarar hugmyndar er að finna á ný­útkomnum geisladiski, Two Sides of Europe sem er hugarfóstur Ásgeirs Ásgeirssonar, gítarleikara og balkanstrengjaleikara. Hann hefur, í samstarfi við Yurdal Tokcan, gert nýjar útsetningar í tyrkneskum anda á íslenskum þjóðlögum og ofið inn í þau frumsamdar laglínur. Allur hljóðheimurinn er í tyrkneskum stíl, nema þegar Sigríður Thorlacius syngur í nokkrum lögum.

Þetta er ágæt hugmynd, svo langt sem hún nær. Forvitnilegt er að heyra Krummann á skjánum, Sofðu unga ástin mín og Ólafur reið með björgum fram í annarri umgjörð en maður á að venjast. Ásgeir er þó ekki sá fyrsti sem fær þá hugmynd að matreiða íslensku þjóðlögin á nýstárlegan hátt ofan í alla túristana. Skemmst er að minnast geislaplötu þar sem þjóðlög voru sungin af sópransöngkonu inni í vita með tilheyrandi bergmáli, of miklu. Píanóplata með mörgum mismunandi útsetningum á Ísland farsælda frón kom líka út nýverið og var varla skemmtilegri.

Gallinn er hvað íslensku þjóðlögin eru leiðinleg! Þau eru dapurleg, drungaleg og dauf, full af myrkri og kulda. Stemningin í þeim opinberar valdníðslu erlendrar og innlendrar yfirstéttar í gegnum aldir, tækifæri sem sífellt voru utan seilingar, vonleysi, eymd og fátækt. Þau eru söngur mannsins sem er búinn að missa af síðasta strætó.

Þetta nýja útspil gerir því miður fátt fyrir þjóðlögin. Til hvers var farið út í þetta? Ef maður vill hlusta á tyrkneska tónlist, þá er fullt af henni á Spotify. Það vantar dramað hér, spennandi framvindu, kræsilegan rytma, safaríkar melódíur, sem svo mikið er af í alvöru tyrkneskri músík. Íslensk þjóðlög eru einfaldlega léleg tónlist og þeim er ekki viðbjargandi. Framandi umgjörð breytir engu þar um.

Engu að síður er tónlistarflutningurinn fagmannlegur. Hljóðfæraleikurinn er snyrtilegur og hljóðheimurinn fjölbreyttur, gæddur mörgum mismunandi litum sem láta vel í eyrum. Söngurinn er líka tær og hreinn, þótt hann sé í spennitreyju algerrar armæðu þjóðlegrar fortíðar. Vonandi tekur þessi góði, hæfileikaríki hópur eitthvað meira bitastætt fyrir næst.

Niðurstaða: Vel unnin plata en nær þó aldrei flugi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.