Erlent

Nýr forseti gagnrýndur fyrir að skipa herforingja í ráðherrastóla

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Emmerson Mnangagwa, forseti Simbabve.
Emmerson Mnangagwa, forseti Simbabve. Nordicphotos/AFP
Emmerson Mnangagwa, nýr forseti Simbabve, kynnti ríkisstjórn sína í gær. Voru þar áhrifamenn úr hernum, sem spiluðu lykilrullu í því að koma Robert Mugabe frá völdum, skipaðir í mikilvæg ráðuneyti.

Sibusiso Moyo, hershöfðingi og eins konar andlit valdatöku hersins, var skipaður utanríkisráðherra. Perence Shiri, yfirmaður simbabv­eska lofthersins, var skipaður landbúnaðarráðherra. Þá var Chris Mutsvangwa, formaður samtaka uppgjafahermanna, skipaður upplýsingamálaráðherra.

Ráðherrakapall Mnangagwa var harðlega gagnrýndur í gær. Jonathan Moyo, menntamálaráðherra Mugabe, sagði til að mynda að ákvarðanirnar þýddu að Zanu-PF, flokkur bæði Mnangagwa og Mugabe, væri dauður. Nú væri herinn við völd.

Þá sagði fyrrverandi fjármálaráðherrann og stjórnarandstæðingurinn Tendai Biti að það hefði greinilega verið rangt hjá Simbabvemönnum að vonast eftir breytingum.

„Þar til nú höfðum við leyft þessari hallarbyltingu að njóta vafans. Við trúðum því, kannski í einfeldni okkar, að nú væri hægt að breyta ríkinu til hins betra. Við þráðum breytingar, frið og stöðugleika. Kannski var rangt að vonast eftir nokkru,“ sagði Biti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×