Erlent

Repúblikanar koma í gegn stórtækum skattkerfisbreytingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, var ánægður með að hafa smalað saman nægilega mörgum atkvæðum til að koma frumvarpinu í gegn í gær.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, var ánægður með að hafa smalað saman nægilega mörgum atkvæðum til að koma frumvarpinu í gegn í gær. Vísir/AFP
Meirihluti þingmanna öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í nótt frumvarp repúblikana um umfangsmestu breytingar á skattkerfi Bandaríkjanna sem gerðar hafa verið í nokkra áratugi. Demókratar gagnrýna vinnubrögð repúblikana harðlega og saka þá um að keyra frumvarpið í gegnum þingið.

Repúblikanar segja að í frumvarpinu felist skattalækkanir fyrir vinnandi fólk. Gagnrýnendur þess segja hins vegar að skattalækkanirnar séu fyrst og fremst í þágu auðugustu Bandaríkjamannanna og fyrirtækja. Þá muni breytingarnar auka fjárlagahallann verulega.

Allir þingmenn repúblikana utan eins greiddu atkvæði með frumvarpinu en demókratar voru á móti. Frumvarpið var samþykkt með 51 atkvæði gegn 49. Enn á þó eftir að samræma efni frumvarpsins við útgáfu þess sem fulltrúadeildin hafði áður samþykkt.

Eins og frumvarpið lítur út núna verður skattur á fyrirtæki lækkaður úr 35% í 20% árið 2019. Þá verða skattar á fjölskyldur og einstaklinga lækkaðir tímabundið til 2025, að því er segir í frétt Washington Post.

Samþykkt með handskrifuðum breytingum

Frumvarpið felur einnig í sér meiriháttar breytingu á sjúkratryggingakerfinu sem Barack Obama forseti fékk samþykkt á sínum tíma. Repúblikönum mistókst að afnema það fyrr á þessu ári. Með skattafrumvarpinu stendur hins vegar til að afnema lykilákvæði Obamacare sem skyldar einstaklinga til að kaupa sér sjúkratryggingu. Varað hefur verið við að þetta munu leiða til þess að milljónir Bandaríkjamanna muni ekki hafa efni á slíkum tryggingum lengur.

Í frumvarpinu er ennfremur heimild til olíu- og gasvinnslu á stóru dýralífsverndarsvæði í Alaska.

Vinnubrögð repúblikana í tengslum við frumvarpið hafa sætt harðri gagnrýni. Þannig fengu þingmenn ekki að sjá um það bil fimm hundruð blaðsíður þess fyrr en örfáum klukkustundum en þeir áttu að greiða atkvæði um það. Þá hafa leiðtogar repúblikana neitað að kalla vitni fyrir nefndir þingsins um frumvarpið og hafa ekki viljað bíða eftir skýrslum um áhrif þess.

Þá tók frumvarpið hröðum breytingum síðustu daga á meðan leiðtogar repúblikana reyndu að tryggja sér stuðning meirihluta þingmanna. Þannig er endanleg útgáfa frumvarpsins sem öldungadeildin samþykkti meðal önnur sögð innihalda handskrifaða hluta sem var breytt á síðustu stundu.

Jon Tester, öldungadeildarþingmaður demókrata, var einn þeirra sem lýsti óánægju sinni í gær. Birti hann myndband á Twitter af frumvarpinu sem hann fékk í hendur skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna og af handskrifuðu breytingunum.

„Þetta er Washington-borg upp á sitt versta,“ tísti Tester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×