Skoðun

Á hlaupum undan ábyrgðinni

Áslaug Friðriksdóttir skrifar
Borgarstjóri telur sig hafa mikla samúð með heimilislausu fólki. Svo mikla að hann skammar sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur fyrir að fara illa með fólk. Sveitarfélögin hafi ekki byggt nógu mikið af félagslegum íbúðum og að hans mati er ástandið því svona slæmt. Þetta er nokkuð öfugsnúið hjá borgarstjóra. Því ástandið í Reykjavík er eins og aðrir vita bein afleiðing af stefnu hans í húsnæðismálum.

Í Reykjavík hefur íbúðum ekki fjölgað nægilega síðustu árin. Þétting byggðar gengur hægar en áætlað var og hótel spretta upp hraðar en íbúðir. Hundruð íbúða hafa farið í leigu til ferðamanna og horfið þannig út af almennum leigumarkaði sem eykur enn á skortinn. Þrátt fyrir að þetta hafi lengi legið ljóst fyrir hefur þörfum borgarbúa ekki verið sinnt. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ríghaldið í þéttingaráformin án þess að endurskoða nægilega áætlanir miðað við breyttar forsendur.

Ef nóg væri af íbúðum í borginni væri ekki sama þörf á að fjölga félagslegum íbúðum. Félagslegt húsnæði í Reykjavík er ekki ódýrt húsnæði, leiguverðið fylgir leiguverði á markaði að miklu leyti. Húsaleigubætur og greiðsla sérstakra húsaleigubóta er óháð því hvort fólk býr í húsnæði í einkaeigu, eigu leigufélaga eða í eigu sveitarfélaganna (félagslegu húsnæði). Þetta hafa sveitarfélögin í kring skilið og uppbygging þar hefur verið hraðari en í Reykjavík. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði eru því ekki í líkingu við það sem er í Reykjavík. Með stefnu sinni hefur meirihlutinn skapað ófremdarástand fyrir allt of margar fjölskyldur sem hafa þurft að grípa til þess örþrifaráðs að sækja um félagslegt húsnæði.

Borgarstjóri ætti því að láta af þeim leiða vana að hlaupast undan ábyrgð, fjarlægja bjálkann úr eigin auga og einsetja sér að gera eins mörgum og hægt er kleift að bjarga sér sjálfum. Sú stefna skilar mun betri árangri en sú sem stunduð er í ráðhúsinu um þessar mundir.



Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×