Innlent

Sveitarfélög vinni gegn áreitni

Baldur Guðmundsson skrifar
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga Vísir
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju sinni með það frumkvæði sem konur í stjórnmálum landsins hafa tekið undir merkjum „Í skugga valdsins“.

Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar sambandsins. Þar skorar sambandið á sveitarstjórnir landsins að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreitni og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga.

Á fundinum var bent á að nauðsynlegt væri að öll sveitarfélög settu sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni, enda sé slík hegðun „ólíðandi með öllu“.

Sveitarfélög sem ekki hafa gert slíkt eru hvött til að nýta sér stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessum efnum.

Þá var samþykkt á fundinum að málefnið yrði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári. Lagt var til að málefnið yrði hluti af því námsefni sem kennt verður á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.

Það var Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, sem hafði frumkvæði að umræðum um málið, utan dagskrár. Tillaga um að setja málið á dagskrá var samþykkt samhljóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×