Lífið

Með bíla í blóðinu

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Rallýkappinn Baldur Arnar Hlöðversson, stendur við opnar dyr bílstjóramegin og aðstoðarökumaður hans, Hjalti Snær Kristjánsson, farþegamegin. Rallbíl Baldurs er Subaru Impreza, árgerð 2003, en saman urðu þeir Íslandsmeistarar á bílnum í flokki B árið 2017. Baldur starfar í Bíljöfri sem er í eigu föður hans og afa.
Rallýkappinn Baldur Arnar Hlöðversson, stendur við opnar dyr bílstjóramegin og aðstoðarökumaður hans, Hjalti Snær Kristjánsson, farþegamegin. Rallbíl Baldurs er Subaru Impreza, árgerð 2003, en saman urðu þeir Íslandsmeistarar á bílnum í flokki B árið 2017. Baldur starfar í Bíljöfri sem er í eigu föður hans og afa. MYND/STEFÁN
Baldri Arnari Hlöðverssyni þykir gaman að keyra hratt. Líka að sikksakka í gegnum krappar beygjur. Hann er á leið til Noregs í rallýskóla til að geta keyrt bílinn sinn enn hraðar.

„Það eru bílar í blóðinu hjá mér,“ segir Baldur, sem hefur verið viðloðandi rallý síðan hann man eftir sér. „Það er víðtæk bíladella í fjölskyldunni og allt snýst um bíla. Pabbi, afi og afabróðir minn kepptu allir í rallakstri og ég var með þeim í kringum bílana frá því ég fór að ganga.“

Baldur er margfaldur Íslandsmeistari í rallakstri. Faðir hans er Hlöðver Baldursson, frækinn rallkappi sem einnig hefur oft hampað Íslandsmeistaratitlinum.

„Ég var alltaf ákveðinn í að feta í fótspor pabba,“ segir Baldur. „Pabbi keppti lengi vel í eindrifsflokki á gamalli Toyotu með drif á einum öxli og eftir ferminguna mína fórum við með fermingarpeningana og keyptum gömlu Toyotuna aftur, sem færði okkur pabba nokkra titla saman,“ segir Baldur sem byrjaði rallferilinn sem aðstoðarökumaður föður síns.

„Í rallakstri mega fimmtán ára unglingar verða aðstoðarökumenn. Mér fannst gott að geta lært af pabba og dýrmætt að sækja í reynslubrunn hans, en enn sætara að verða Íslandsmeistarar saman,“ segir Baldur sem varð Íslandsmeistari með föður sínum árið 2010 en þeir feðgar kepptu saman á árunum 2009 til 2011.

„Við pabbi skiptum svo um hlutverk þegar ég fékk bílpróf árið 2011 og keypti fjórhjóladrifinn Subaru Impreza, án túrbínu. Þá fór ég að keppa í 4x4 Non Turbo-flokknum og pabbi var aðstoðar­ökumaður minn fyrsta kastið, en síðan hef ég keyrt með vinum mínum og kærustu.“

Tilbúinn í næsta skref

Á nýárinu er Baldur á leið í rallýskóla í Noregi og ætlar að taka bílinn sinn með sér í skólann.

„Ég ætla í vetrarrallýskóla Johns Haugland í Geilo í Noregi, skammt utan við Ósló. Haugland er frægur rallaksturskappi sem keppti lengi fyrir Skoda en fékk hugmyndina að rallýskólanum hann þegar hann lék sér að því að keyra á ísilögðu vatni. Þá eru stikaðar akstursbrautir á frosnu stöðuvatni og engin slysahætta fyrir hendi ef maður ekur óvart út af brautinni og lendir í mjúkum snjóskafli,“ útskýrir Baldur og er hinn spenntasti fyrir skólavistinni.

„Skólinn hefur verið draumur minn síðan ég vann fyrsta titilinn í 4x4 Non Turbo árið 2014 en nú finnst mér vera rétti tíminn til að láta til skarar skríða. Ég er orðinn 23 ára, kominn á frábæran bíl og tilbúinn til að taka næstu skref. Bílinn tek ég með mér út því á honum mun ég keppa áfram. Ég vil ná enn betri tökum á honum, læra að keyra hann enn hraðar, komast hraðar inn og úr beygjum og kunna betur á mikilvæga eiginleika bílsins.“

Baldur og bíllinn sigla út til Noregs með Norrænu 10. janúar.

„Ég hlakka mikið til þess að æfa mig í vetrarakstri en það er mjög svipað að keyra í snjó og möl. Ég bind vonir við að verða enn betri ökumaður eftir námið og eygja jafnvel möguleika á að komast til keppni í rallakstri í útlöndum.“

Baldur keppir nú í Grúppu N á Subaru Impreza, árgerð 2003. Bíllinn er 300 hestöfl, með túrbínu og kemst auðveldlega upp í 220 kílómetra hraða á klukkustund.

„Hraðinn er eitt, en bíllinn þarf líka að vera með góðar bremsur og fjöðrun. Hann fer hraðast 220 km/klst., en rallbrautir eru bæði beinar og hlykkjóttar, og meðalhraðinn má ekki fara yfir visst mikið. Því eru þrengingar á vegum til að stemma stigu við of miklum hraða.“

Rallið á hug minn allan

Baldur segir hættulítið að keppa í rallakstri enda séu öryggiskröfur strangar.

„Bílarnir eru búnir sterkum veltibúrum og ökumenn sitja niðurnegldir í sex punkta beltum í sérhönnuðum körfubílstólum. Þeir klæðast líka eldvarnargalla-, skóm- og hönskum, eru með hjálma og sérstakan búnað sem ver þá fyrir hálsmeiðslum við snögga hemlun eða högg,“ útskýrir Baldur.

„Það geta auðvitað allir keypt sér bíl og græjað fyrir rallkeppni, farið af stað og keyrt hratt, en þá er spurning hversu langt menn komast. Ökuhæfnin þarf að vera upp á tíu og skynsemi að ráða ríkjum við ákvarðanatökur á leiðunum; maður þarf að skynja hvernig bíllinn hagar sér og hvernig maður nær að halda honum á veginum á miklum hraða, til að ná bestum tíma.“

Sigurvegari í rallakstri er sá sem kemst leiðar sinnar á sem skemmstum tíma, og á leiðarenda með besta heildartímann.

„Rallakstri fylgir adrenalínflæði frá upphafi til enda og það er ótrúlega spennandi að keyra hratt á lokaðri leið með traustan öryggisbúnað fyrir hendi. Ég fæ allavega ekki nóg, lifi fyrir þetta, og þegar ég er ekki að keppa eða grúska og græja í bílnum fyrir keppni, er ég að fara utan til að fylgjast með keppnum eða horfa á keppni í sjónvarpinu. Rallið á hug minn allan,“ segir Baldur sem lifir og hrærist í rallheiminum.

„Allir mínir vinir tengjast rall­akstri og ég hef kynnst frábæru fólki í þessu sporti. Margir vina minna, sem ég kynntist þegar ég lærði bifvélavirkjun í Borgarholtsskóla, elta mig líka á keppnisferðum um landið og þjónusta bílinn í keppnum,“ segir Baldur, sem hefur hlotið styrk frá Garmin til að taka lifandi myndir á ferðalaginu og í norska vetrarrallýskólanum.

„Æðsti draumur rallökumanna er að komast í heimsmeistarakeppnina, en mig dreymir um að keppa úti og komast í atvinnumennsku. Flestir horfa til Bretlands, sem er mekka rallaksturs, en þaðan liggur leiðin oft í stærri rallkeppnir heimsins,“ segir Baldur sem elskar að kitla bensíngjöfina og keyra mjög hratt í keppni.

„Mér finnst hröðunin sérstaklega skemmtileg; að vera snöggur upp og geta haldið hraðanum á kafla. Tæknilega hliðin er líka einstaklega skemmtileg, þegar maður fer í gegnum margar beygjur og sikksakkar bílnum á milli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×