Innlent

Met í heitavatnsnotkun í nóvember

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Slegið var met í notkun á heitu vatni fyrir nóvembermánuð.
Slegið var met í notkun á heitu vatni fyrir nóvembermánuð. Vísir/gva
Aldrei hefur meira verið notað af vatni úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði en nú í ár. Mánuðurinn var enda frekar kaldur og stormasamur undir lokin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

Um 90 prósent af heita vatninu fer til húshitunar og í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni inn í hús frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri. Það er 15 prósent meira magn en sama mánuð í fyrra. 

„Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar var nóvember kaldur. Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,2 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Augljóst samhengi er því á milli tíðarfarsins og heitavatnsnotkunarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að íslensk heimili noti að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern fermeter húsnæðis. Það sé því árangursríkt til sparnaðar að hafa hitakerfi og ofna rétt stillt fremur en að fækka baðferðum. Ein baðferð kostar ekki mikið, en safnast þegar saman kemur og geta þúsundkallarnir fljótt safnast upp ef bilun er í kerfi eða ofnar rangt stilltir.

Veitur reka hitaveitu fyrir um 70 prósent Íslendinga. Sú stærsta er á höfuðborgarsvæðinu. Veitur reka líka vatnsveitur, rafveitur og fráveitur á sunnan- og vestanverðu landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×