Lífið

Sex ára skrifaði harðort bréf til jólasveinsins: „Lífið þitt er tómt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Bréfið fræga.
Bréfið fræga. Vísir / Skjáskot af Twitter
Sex ára drengur í Virginíu í Bandaríkjunum var beðinn um að skrifa bréf til jólasveinsins í skólanum sínum. Útkoman var heldur betur harðorð, og eilítið fyndin, en móðir drengsins, Sarah McCammon, deildi bréfinu á Twitter-síðu sinni.

„Kæri jólasveinn, ég er bara að gera þetta fyrir skólann,“ skrifar drengurinn í inngangi bréfsins, til að taka það skýrt fram að hann hafi ekki viljað skrifa jólasveininum bréf heldur sé þetta eingöngu skólaverkefni. Og hann heldur áfram:

„Ég veit að listinn yfir slæmu krakkana er tómur. Og listinn yfir góðu krakkana er tómur. Og lífið þitt er tómt. Þú veist ekki hvaða erfiðleika ég þarf að kljást við í lífi mínu. Bless,“ skrifar drengurinn og endar bréfið á einlægum nótum.

„Ástarkveðja, ég ætla ekki að segja þér nafnið mitt.“

Móðir drengsins deildi mynd af bréfinu á Twitter í byrjun vikunnar og hefur því verið deilt margoft, með þeim afleiðingum að Shannon og fjölskylda hennar hafa leitað í heimspressuna.

Margir notendur Twitter hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir bréfinu, þá vegna þess að drengurinn segist glíma við erfiðleika. Móðir hans leiðrétti þann misskilning á Twitter hið snarasta.

„Erfiðleikar í lífinu hans? Bróðir hans. Ekki hringja í barnaverndarnefnd,“ skrifar hún. Í viðtali við fréttastofu Reuters ítrekar hún að það sé bróðir drengsins sem sé að valda honum ama.

„Hann sagði að hann væri að vísa í eldri bróður sinn - sérstaklega út af því að bróðir hans vinnur hann oft í tölvuleikjum,“ segir Shannon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×