Tónlist

Frumsýning á Vísi: Lag um afleiðingar kynferðisofbeldis - „Þetta snýst um samþykki”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Tónlist snýst um að segja sögur og textarnir mínir eru þannig, ég reyni að segja sögur í þeim, bæði mínar og annarra,“ segir Þórunn Erna.
„Tónlist snýst um að segja sögur og textarnir mínir eru þannig, ég reyni að segja sögur í þeim, bæði mínar og annarra,“ segir Þórunn Erna. Mynd / Úr einkasafni
„Þetta lag fjallar um manneskju sem getur ekki sofið því minningar leita á hana stanslaust. Í rauninni fjallar lagið um það að vilja gleyma,“ segir söng- og leikkonan Þórunn Erna Clausen.

Hún frumsýnir á Vísi myndband við lagið Man aðeins þig, en textann og lagið samdi Þórunn Erna sjálf, ásamt meðal annars Michael James Down, en þau sömdu Eurovision-smellinn Þú hefur dáleitt mig saman. 

Laginu er best lýst sem elektró poppi, en texti lagsins fjallar um afleiðingar kynferðisofbeldis. Það má segja að textinn hafi komið til Þórunnar Ernu.

„Lög kalla fram einhverjar tilfinningar í mér, sem að lokum verða að sögunni sem mér finnst lagið þurfa að segja. Í þessu tilfelli voru það afleiðingar kynferðisofbeldið. Ég þekki svo marga sem hafa orðið fyrir alls kyns ofbeldi. Í leiklistinni vinn ég við að setja mig í spor annarra og segja sögur, og það sama er uppá teningnum í tónlist. Tónlist snýst um að segja sögur og textarnir mínir eru þannig, ég reyni að segja sögur í þeim, bæði mínar og annarra,“ segir Þórunn Erna. 

Þórunn Erna frumsýnir nýtt myndband í dag á Vísi en er með þrjú önnur lög í smíðum.Mynd / Úr einkasafni

„Auðvitað á enginn að verða fyrir ofbeldi“

Leik- og söngkonan knáa hefur ekki farið varhluta af #metoo byltingunni í þjóðfélaginu og telur, í og með, að sú bylting hafi rutt veginn fyrir lag eins og Man aðeins þig. 

„Lagið varð til fyrir svolitlu síðan og var tilbúið til útgáfu og fannst mér að nú væri tíminn kominn þar sem fólk væri tilbúið að hlusta á lag sem fjallar um kynferðisofbeldi,“ segir Þórunn Erna og vonar að vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi og áreiti í hinum ýmsu stéttum á Íslandi leiði gott af sér.

„Ég vona að þetta geri það að verkum að fólk þori að segja frá og stoppa hluti fyrr. Þetta lag fjallar um allt kynferðisofbeldi sem fólk getur orðið fyrir, allt frá ofbeldi í æsku. Ég vona að einhver geti tengt við lagið og textann. Það eru svo margir sem hafa orðið fyrir ofeldi og lagið fjallar í raun um hve lengi þetta situr í fólki. Auðvitað á enginn að verða fyrir ofbeldi og ég vona að #metoo byltinginn verði til þess að við setjum ábyrgðina á gerendur - ekki þolendur. Þetta snýst um samþykki, samþykki verður að vera til staðar. Semi dæmi getur aðili sem er lyfjaður eða ofurölvi ekki veitt samþykki.“

Þórunn Erna er með þrjú önnur lög í vinnslu sem eru væntanleg á nýju ári. Myndbandið við Man aðeins þig gerði Þórunn sjálf en Arna Rún Ómarsdóttir, eigandi Vocal Art söngskólans ásamt Þórunni Ernu, syngur bakraddir. 

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×