Lífið

Fíla tónlistarsmekk mæðranna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Sigurlaug, Arnar, Jökull og Þórlaug. Þó að strákarnir séu á þéttum tónleikaferðum ætla báðir að vera heima um jólin. "Hefðirnar virðast dýrmætari en flest annað,“ segir Þórlaug.
Sigurlaug, Arnar, Jökull og Þórlaug. Þó að strákarnir séu á þéttum tónleikaferðum ætla báðir að vera heima um jólin. "Hefðirnar virðast dýrmætari en flest annað,“ segir Þórlaug. Vísir/Ernir
Við mælum okkur mót á kaffihúsi, Sigurlaug Lövdahl og sonur hennar, Arnar Pétursson gítarleikari í Mammút, Þórlaug Sveinsdóttir og hennar sonur, Jökull Júlíusson söngvari og gítarleikari í Kaleo, og ég. Það má kallast kraftaverk að ná þessum mæðginum saman því sakir vinsælda hljómsveita strákanna eru þeir á stöðugum tónleikaferðum um veröldina og tylla sjaldan niður tám samtímis á landinu. Arnar var að ljúka löngum túr með Mammút um Ameríku og Evrópu. Jökull er í smástoppi heima eftir að hafa komið fram með Kaleo í Moskvu og St. Pétursborg og endar fjögurra mánaða túr í Grikklandi 16. desember. „Þetta er rosalegt úthald,“ segir Sigurlaug en bendir á að báðir verði heima um jólin.

„Já, ég var með hugmyndir um að fjölskyldan héldi bara jólin einhvers staðar í útlöndum. Nei, takk. Jökull tók það ekki í mál. Allt á að vera eins og venjulega, jólamúsíkin, steikin, laufabrauðið. Hefðirnar virðast dýrmætari en flest annað,“ segir Þórlaug hlæjandi. Sigurlaug kannast vel við það. „Á jólunum höfum við spilað sömu diskana alveg frá því Arnar var lítill, það er miðaldajólamúsík og ekta barokk og þetta verður hann að hlusta á á hverjum einustu jólum.“



Það eru einmitt svona sögur úr bakgrunni strákanna sem ég er að sækjast eftir. Mæðurnar eru báðar söngfuglar í kór en taka ekkert sérstaklega undir þá fullyrðingu mína að strákarnir hljóti að hafa fengið tónlistarhæfileika með móðurmjólkinni. „Eða úr umhverfinu,“ segir Sigurlaug. „Þeim jarðvegi sem orðið hefur til fyrir þessa kynslóð í tónlistinni. Þar á ég við Músíktilraunir, Samfés, Airwaves, að ógleymdum tónlistarskólunum. Þetta hefur allt ratað í sama pottinn, gerjast þar og upp spretta þessar flottu hljómsveitir sem eru að gera það gott.“

Þórlaug tekur undir það. „Til dæmis í Mosó, heimasveit strákanna í Kaleo, höfðu þeir frítt aðgengi að æfingahúsnæði í mörg ár í skúr á skólalóðinni. Voru með lykil og gátu geymt hljóðfærin sín þar. Síðan tóku foreldrar Davíðs trommara við að hýsa þá í bílskúrnum í tvö ár. Það var ómetanlegt.“

„Þessi skilningur er svo mikilvægur,“ segir Sigurlaug. „Krakkarnir í Mammút fengu einmitt að æfa í bílskúrnum hjá Andra trommara. Það er svo margt sem stuðlar að tónlistaruppeldinu hjá þessari kynslóð.“ Þær geta þess að báðir eigi ungu mennirnir músíkalska feður, faðir Arnars er Pétur Jónasson og Jökuls Júlíus Hjörleifsson.

„Mamma verður með mér úti nokkra daga núna í desember, meðal annars á mínum eigin tónleikum í Aþenu í Grikklandi,“ segir Jökull.
Hlustuðu mikið á músík

Fyrsta minning Arnars tengd tónlist er einmitt um pabba hans að spila á gítar. „Pabbi er klassískur gítarleikari og æfði sig mikið heima. Ég man líka eftir tónlistarmyndbandi sem var oft spilað á RÚV snemma á 10. áratugnum. Í því var lítill strákur sem söng held ég á grænlensku og dansaði og svo voru alls konar litir úti um allt. Ég var alveg óður í þetta lag og þetta var mikið rætt á leikskólanum. Síðan hef ég leitað að þessu lagi en ekki tekist að finna það. Ef einhver veit hvað þetta er má sá hinn sami senda mér skilaboð á Facebook.“

„Jökull var músíkalskur frá fæðingu og drakk allt í sig, bæði lög og texta,“ rifjar Þórlaug upp. „Sem krakki spilaði hann kasettur eins og Barnabros, Tunglið, tunglið taktu mig, Olgu Guðrúnu og fleira íslenskt efni. Pabbi hans spilar líka á gítar og þeir syngja mikið saman. Stína Maja, sem er með okkur í Söngfjelaginu, passaði Jökul í fyrsta skipti sem ég fór af landi brott eftir að hann fæddist, þegar hann var 18 mánaða. Það var píanó heima hjá henni og hún sagði: „Ég þurfti ekkert að hafa fyrir honum, setti hann bara við píanóið.“

Svo fluttum við á Höfn þegar hann var sex ára og það tekur fimm, sex tíma að keyra á milli Reykjavíkur og Hafnar. Ég keypti lítið hljómborð með heyrnartólum og ég vissi ekki af drengnum. Hann sat bara aftur í með hljómborðið, algerlega í eigin heimi.“ Jökull minnist leikhús- og bíóferða að sjá Dýrin í Hálsaskógi og Lion King sem hann kveðst hafa eignast síðar á VHS. „Myndin og tónlistin hafði mikil áhrif á mig á þeim tíma og svo átti mamma geisladiskinn sem var oft spilaður í bílnum.“

Arnar segir sitt fyrsta uppáhaldslag hafa verið Bamboleo með Gipsy Kings. „Pabbi átti það á kasettu sem var alltaf í bílnum og ég bað hann að spila það aftur og aftur þegar við vorum á rúntinum. Það er ennþá eitt af mínum uppáhaldslögum.“

En hvaða tónlist muna þeir eftir að mæður þeirra hafi hlustað á þegar þeir voru litlir? „Mamma hlustaði á fjölbreytta tónlist, bæði íslenska og erlenda,“ svarar Jökull. „Ég kunni að meta nánast allt sem hún hlustaði á nema kannski fusion-djass.“

Arnar á svipaðar minningar. Efst í hans huga af lista móður hans eru KK, Bubbi, U2, R.E.M. og svo seinna það sem stundum er kallað heims­tónlist eins og Buena Vista Social Club og Cecaria Evora. „Ég man eftir að hafa ekki skilið erlendu textana og oft búið til mína eigin út frá því hvernig orðin hljómuðu. Lagið „Sangue de Beirona“ með Cecaria Evora varð til dæmis að „Í sandi með Óla“!“

Jökull kveðst ekki hafa átt eitthvert eitt goð í tónlistinni þegar hann var yngri. „Ég hef alltaf verið alæta á tónlist og var duglegur að hlusta á bara sem mest og flest,“ segir hann.

Arnar byrjaði snemma að hlusta á Bítlana, að eigin sögn. „Ég ákvað strax að Paul McCartney væri minn maður. Það var samt aðallega af því að allir aðrir héldu mest upp á John Lennon og ég vildi vera öðruvísi. Næst á eftir því datt ég í rappið og þá tóku Tupac og Puff Daddy við. Enn síðar varð ég forfallinn Nirvana-aðdáandi og fannst Kurt Cobain flottasti gaur sem uppi hafði verið.“

Sigurlaug og Arnar eiga sameiginlegar minningar frá Sumartónleikum í Skálholti í fimm sumur.
Áhrifavaldar í tónlistinni



Eitt af því sem fram kemur í þessu spjalli er að Arnar er menntaður húsgagnasmiður og nemandi í heimspeki. En hvernig var tónlistar­námi háttað hjá þessum herramönnum? „Ég var mjög ungur í kór á leikskólanum á Reykjalundi og svo byrjaði ég í klassísku námi á píanó um átta, níu ára aldur. Það þróaðist síðan hratt yfir í að spila eftir eyranu og semja lög,“ segir Jökull. Móðir hans rifjar þetta nákvæmar upp.

„Jökull byrjaði í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, svo fórum við austur og þar lærði hann hjá Sigjóni Bjarnasyni í Tónlistarskóla Hornafjarðar. En 12 til 14 ára var hann ekkert í tónlist, þá bjuggum við í Danmörku. Þegar hann kom heim fór hann í FÍH og þá að læra á djasspíanó en svo var honum gefinn gítar í jólagjöf og þá missti hann algerlega áhuga á píanóinu og kenndi sér í raun sjálfur á gítarinn. Síðan hefur hann verið rokkari.

Arnar kveðst hvorki hafa sungið né spilað á hljóðfæri fyrr en hann var 12 ára. „Ég var aldrei settur í tónlistarskóla sem barn heldur kom það algjörlega frá mér sjálfum. Upphaflega ætlaði ég að læra á píanó hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni en þegar kom í ljós að allt var uppbókað hjá honum ákvað ég að láta reyna á klassískan gítar í staðinn og var hjá Kristni H. Árnasyni, Páli Eyjólfssyni og pabba. Ég var í því námi í um 10 ár með hléum en keypti mér rafmagnsgítar í 7. bekk og fiktaði við að spila á hann heima. Í 9. bekk stofnaði ég svo hljómsveitina Afstætt hugtak með æskuvinum mínum og samdi þar mín fyrstu lög. Ári síðar varð Mammút til og þangað beindi ég öllum mínum tónlistarkröftum og geri enn í dag.“

Sigurlaug, móðir hans, bætir því við að Arnar hafi líka verið í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í tvö ár og sú reynsla hafi einnig haft sitt að segja. „Svo var ég framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholtskirkju í fimm sumur, Arnar var alltaf með mér þar og fór á eina tónleika um hverja tónleikahelgi. Það tók hann bara upp hjá sjálfum sér. En við vorum þarna innan um mjög marga afbragðs tónlistarmenn þessar fimm vikur í fimm sumur.“



Báðir segjast piltarnir hafa fengið mikinn stuðning heima. „Mamma hvatti mig til að byrja að æfa á píanó og sá til þess að píanó væri til á heimilinu og gerir enn,“ segir Jökull. „Þau mamma og stjúpi minn borguðu fyrir mig tónlistarnámið, meðal annars í FÍH, og hafa síðan ásamt pabba stutt rækilega við bakið á mér síðustu ár og reynst mér ótrúlegt bakland.“

Arnar segir bæði blóð- og stjúpforeldra sína ýmist gítarleikara eða mikla tónlistarunnendur svo umhverfið hafi verið uppbyggilegt. „Ég hef alltaf verið í miklum mótþróa gegn því að greina hvaðan áhrif í tónlist koma því mér hefur aldrei fundist það skipta neinu máli og auk þess er erfitt að setja fingur á það. Um daginn var ég að koma úr tónleikaferðalagi með Mammút og setti á tónleikaupptöku af Nirvana, þá allt í einu fattaði ég hvað sú hljómsveit hefur haft mikil áhrif á mig. Það er einhver kraftur í henni sem ég get ekki skilgreint og hann tekur alveg yfir. Þegar ég hlusta þá langar mig að fara beint að semja tónlist sjálfur.“

Þórlaug bendir á að íslenska náttúran gegni stóru hlutverki í myndböndum Kaleo. „Ég er viss um að hún hefur áhrif á tónlistina líka. Jöklarnir, fjöllin og hafið, þetta er allt svo stórbrotið.“ Jökull segir áhrifavalda sína ótrúlega marga, meðal annars í klassískri tónlist, rokktónlist, blústónlist og djasstónlist „Eins og ég segi þá hef ég alltaf verið alæta á tónlist og sjaldan fókuserað á einhvern einn listamann eða eina tónlistarstefnu. Það sem er mér kannski mikilvægast er að koma úr því umhverfi sem ég er og hafa stuðning til að hafa fullt frelsi. Það gerir það að verkum að ég er óhræddur við að skapa og að gera það sem hentar mér og minni tónlist. Því á ég móður minni mikið að þakka og það er ómetanlegt.“





Mömmurnar eru á fullu að undirbúa jólatónleikana með Söngfjelaginu á morgun.
Mömmurnar mæta á tónleika

Mæðurnar kannast alveg við að hafa sýnt drengjunum áhuga og því sem þeir hafa verið að fást við. En eru þær aldrei hræddar um þá?

Sigurlaug bendir á að þeir séu nú orðnir fullorðnir menn. „En ég man að þegar Mammút var að byrja og vann Músíktilraunir 2004 þá vorum við foreldrarnir pínulítið hræddir um að krakkarnir mundu bara lenda í einhverju rugli. Svo var engin ástæða til að hafa áhyggjur.“

Þær segjast fylgjast með sonunum gegnum símtöl, SMS og smáskilaboð og fara líka á tónleika stundum. „Það skiptir þá miklu máli að einhver úr fjölskyldunni sjái út á hvað líf þeirra gengur og auðvitað er það dýrmætt fyrir okkur líka,“ segir Sigurlaug. „Ég fór einmitt til Bandaríkjanna núna nýlega, þá var Mammút að spila í Brooklyn í New York. Foreldrar Kötu söngkonu fóru líka. Það var rosa gaman.“

Jökull segir systur sína hafa túrað með Kaleo í Bandaríkjunum í tíu daga um daginn og fleiri í fjölskyldunni séu duglegir að koma og styðja við bakið á honum. „Mamma verður með mér úti í nokkra daga núna í desember, meðal annars á mínum eigin tónleikum í Aþenu í Grikklandi.“ Hann kveðst ekki hafa tölu á því lengur hversu mörg lönd hann hafi heimsótt. „Síðan í ágúst hef ég líklega spilað í 20 til 25 löndum.“

Arnar hefur svipaða sögu að segja, giskar á að hann hafi spilað í 22 löndum í allt og 10 til 20 sinnum í mörgum þeirra. „Mammút hefur margoft ferðast um Evrópu þvera og endilanga og nú í seinni tíð verið töluvert í bæði Norður- og Suður-Ameríku. Næst langar mig að spila í Kína,“ segir hann.

Jólatónleikar á morgun

Ekki verður mömmunum svo sleppt úr viðtalinu að þær segi ekki aðeins frá sinni tónlistariðkun. Báðar eru kórakonur en Sigurlaug hefur vinninginn með bakgrunn úr Hamrahlíðarkórunum og Mótettukór Hallgrímskirkju.

Nú snýst allt um að undirbúa aðventutónleika Söngfjelagsins sem verða í Langholtskirkju á morgun, sunnudaginn 10. desember, bæði klukkan 16 og 20. „Þetta eru þriðju og síðustu aðventutónleikarnir í röð sem eru með írsk-keltnesku þema,“ lýsir Sigurlaug. „Á þessa tónleika fáum við erlenda gesti, mjög flott fólk, eins konar rokkstjörnur írsk- keltnesku tónlistarhefðarinnar og auk söngsins verður meðal annars leikið á írska hörpu, fiðlu og hljóðfæri sem heitir „uilleann pipes“. Þannig hefur þetta verið líka tvö síðustu ár en það hafa aldrei komið eins margir að utan og núna. Það er ekki oft sem við eigum þess kost að hlusta á Íra flytja þessa tónlist hér á Íslandi svo þetta er einstakt tækifæri.“

Þórlaug segir alltaf líflegt á æfingum með Söngfjelaginu og svo toppi tónleikar kórsins stemninguna, bæði á aðventunni og síðasta vetrardag.

„Við erum kringum sextíu í kórnum og á aðventutónleikunum á morgun ætlum við að flytja nýtt verk eftir Daníel Þorsteinsson sem heitir Himinn yfir, við texta eftir Stefán frá Hvítadal. Kórinn mun svo einnig syngja lögin sem við frumfluttum á aðventutónleikunum í fyrra og hitteðfyrra en þau voru eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og Hjörleif Hjartarson sem eru bæði í kórnum. Þannig að þetta verður keltnesk-írsk-íslensk stemning.  Svo er stjórnandinn okkar, hann Hilmar Agnar Hilmarsson, kraftmikill og skemmtilegur, það er sko aldrei nein lognmolla í kringum hann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×