Lífið

Höfðar mál vegna fullyrðinga um að hann hafi nauðgað Corey Haim

Birgir Olgeirsson skrifar
Charlie Sheen.
Charlie Sheen. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Charlie Sheen hefur stefnt tímaritinu National Enquirer vegna frétta þar er að Sheen hafi nítján ára gamall nauðgað þrettán ára gömlum mótleikara sínum, Corey Haim, á meðan þeir léku í myndinni Lucas sem kom út árið 1986.

Greint er frá stefnunni á vef Deadline en þar segir að Sheen hafi höfðað mál gegn tímaritinu í Los Angeles síðastliðinn föstudag. Segir Sheen fréttina vera svívirðilega, meiðandi og viðbjóðslega herferð tímaritsins sem miðast að því að ófrægja mannorð hans. Er leikarinn á því að um sé að ræða útreiknaðan illvilja tímaritsins til að valda honum skaða.

Corey HaimVísir/Getty
Í frétt National Enquirer er rætt við fyrrverandi leikarann Dominick Brascia sem segir Haim hafa sagt sér frá nauðguninni. 

Sheen segir þessa frétt draga upp mynd af honum sem barnaníðingi sem hafi níðst á Haim til að koma sínu fram. Því er haldið fram í fréttinni að þetta brot hafi orðið til þess að Haim leiddist út í eiturlyfjaneyslu sem hafi dregið hann til dauða. Haim lést árið 2010, 38 ára gamall að aldri, eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn.

Í stefnunni bendir Sheen á að tekið sé fram í frétt National Enquirer að hundruð manna geti staðfest þessa frásögn en þó sé einungis rætt við Dominick Brasci.

Sheen heldur því fram að um sé að ræða persónulega óvild ritstjóra tímaritsins, Dylan Howard, í sinn garð vegna þess að sá síðarnefndi hafi ekki fengið að vera fyrstur til að segja frá því að Sheen væri HIV-smitaður. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×