Skoðun

Tækifærin liggja í heimaþjónustu

Margrét Guðnadóttir skrifar
Umræða um yfirflæði á sjúklingum á Landspítala er hávær. Lausnin er sögð aukið fráflæði spítalans sem vísar til hraðari útskrifta. En takmarkast þó af skorti á úrræðum eins og hjúkrunarrýmum og heimaþjónustu. Útskrift skjólstæðinga aftur til síns heima er markmiðið og flestir vilja komast aftur heim, að því gefnu að þeir fái þá aðstoð og þjónustu sem þörf er á. Aukin heimaþjónusta er vannýtt auðlind og í henni liggja tækifærin.

Heimaþjónusta er hugsuð til að koma til móts við grunnþarfir einstaklinga sem misst hafa færni í sjálfsumönnun og gera fólki kleift að búa lengur heima með reisn. Þróunin hefur verið sú að með auknum lífaldri þjóðfélagsþegna og hraðara gegnumstreymi á sjúkrahúsum, útskrifast einstaklingar veikari heim, með fjölþætta sjúkdóma og flóknari þarfir. Það kallar á breyttan fókus í heimaþjónustu og aukna þekkingu starfsfólks og færni til að takast á við flókin heilsufarsvandamál.

Meginmunur á umönnun fólks í heimahúsi og á sjúkrastofnunum er að einstaklingnum er mætt í hans eigin umhverfi. Í því felst mikil fegurð. Reynslan sýnir að inni á heimilinu er skjólstæðingurinn öruggari með sig, með sterkara sjálf, sjálfstæðari í hugsun og sýnir aukna sjálfsbjargarviðleitni í athöfnum daglegs lífs. Starfsmenn sem koma til aðstoðar á heimili veita ráðgjöf, styrkingu og aðstoð við daglegar athafnir en eru alltaf háðir vilja og samvinnu þeirra sem þjónustuna þiggja.

Þjónusta sem veitt er í heimahúsum byggir á víðtækri þekkingu og sjálfstæðum vinnubrögðum starfsfólks. Starfsmenn koma yfirleitt einir í vitjun til skjólstæðinga sinna. Samstarfsmenn eru ekki í kallfæri líkt og á sjúkrastofnunum. Ábyrgð hvers starfsmanns til mats og meðferðar er því meiri en ella. Að meta ástand, einkenni, framför eða afturför á líðan og heilsu einstaklinganna og hvenær sé tímabært að leita frekari ráðgjafar eða meðferðar byggir á klínískri færni og öryggi í vinnubrögðum starfsmanna. Fyrir hjúkrunarfræðing í heimahjúkrun er þetta mikil fagleg áskorun en jafnframt það sem gerir starfið heillandi.

Mikil áskorun

Árlega fá um 2.300 einstaklingar aðstoð heimahjúkrunar í Reykjavík. Hver teymisstjóri hjúkrunar ber ábyrgð á um 50-80 skjólstæðingum hverju sinni, misjafnt eftir hverfum borgarinnar. Staða hjúkrunarfræðings er krefjandi og að halda utan um alla þræði umönnunar hvers einstaklings er mikil áskorun. Meta þarf og leggja upp meðferð á hverjum tímapunkti, bregðast við breytingum á þörfum og vita hvert á að leita eftir sérfræðiráðgjöf. Hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun eru í náinni samvinnu við aðra heilbrigðisstarfsmenn á spítala, göngudeildum, heilsugæslu eða sérfræðistofum. Þeir veita sérhæfða hjúkrunarmeðferð í heimahúsum ásamt því að stýra og leiðbeina öðru starfsfólki með umönnunarverkefni.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar bera uppi þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í heimahúsum í náinni samvinnu við félagslega heimaþjónustu. Verkefni flæða á milli þjónustustiga hjúkrunar og félagsþjónustu eftir því hver þörfin er á hverjum tíma. Útskriftir á veikari einstaklingum af spítala og seinkun á flutningi yfir á hjúkrunarheimili hefur aukið hjúkrunarþyngd í heimaþjónustu til mikilla muna.

Einstaklingar þurfa umfangsmeiri umönnun og flóknari meðferðir á heimilum sínum. Illviðráðanlegir verkir, sýkingar, flókin hjálpartæki, næringarvandamál og skert hreyfigeta eru dagleg verkefni á herðum starfsmanna heimaþjónustu. Flóknir sjúkdómar á borð við hjartabilun, taugahrörnun, sykursýki og heilabilun eru algengir og mikilvægt að starfsfólk hafi víðtæka þekkingu á þeim og kunni að bregðast við breytingum á ástandi.

Flóknari aðstæður krefjast meiri kunnáttu og meiri tíma til að sinna verkefnum. Aukinn fjöldi hrumra aldraðra í heimahúsum felur í sér þörf á enn fleira sérhæfðu starfsfólki heimahjúkrunar. Fráflæði Landspítala er vandamál í dag en með aukningu á mannafla til heimahjúkrunar yrði dregið úr þeim vanda strax á morgun.

Umönnun í heimahúsi er heillandi umhverfi með krefjandi áskorunum fyrir metnaðarfullt starfsfólk. Í heimahjúkrun liggja tækifærin í faglegri þróun hjúkrunarfræðinga landsins og möguleikar fólks með heilsubrest til að búa lengur heima með reisn.

 

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×