Lífið

Selur íbúðina á tæplega þrjá milljarða króna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Bæ, bæ New York.
Bæ, bæ New York.
Söng- og leikkonan Jennifer Lopez er búin að setja þakíbúð sína í Nomad-hverfinu á Manhattan í New York á sölu. Ásett verð eru 26.95 milljónir dollara, eða tæplega þrír milljarðar króna.

Þeir sem hafa fylgst með ferli Jennifer vita að hún er fædd og uppalin í New York, nánar tiltekið í Bronx-hverfinu eins og hún syngur um í laginu Jenny from the Block, sem er á plötunni This Is Me… Then frá árinu 2002. Jennifer keypti íbúðina á Manhattan árið 2014 í gegnum eignahlutafélag á rétt rúmlega tuttugu milljónir dollara.  

Björt og falleg íbúð.
Þessi fjögurra herbergja íbúð sem nú er komin á sölu er með glæsilegra móti og er á East 26th Street, nálægt Madison Square Park og Flatiron-byggingunni. Hún er rúmir sex hundruð fermetrar og búin sex stórum baðherbergjum, tveimur litlum baðherbergjum og fjórum veröndum, en alls er útisvæðið sem fylgir íbúðinni tæplega þrjú hundruð fermetrar. 

Stórt og fallegt útisvæði.
Það er Modlin Group sem sér um sölu á íbúðinni og samkvæmt þeim er þessi íbúð krúnudjásn byggingarinnar sem hún er í. 

Nágrannar J. Lo í byggingunni eru Chelsea Clinton, Nascar-ökuþórinn Jeff Gordon og John Silvetz, stjórnandi vogunarsjóðs. Öll þrjú greiddu þau tíu milljónir dollara eða minna fyrir sínar íbúðir, þannig að ljóst er að íbúð Jennifer er sú stærsta og íburðarmesta í byggingunni.

Huggulegt.
Þetta er í annað sinn á árinu sem Jennifer selur fasteign. Fyrr í ár seldi hún glæsihýsi sitt í Los Angeles fyrir tíu milljónir dollara, rúman milljarð króna. Verð þeirrar eignar hafði hins vegar margsinnis verið lækkað og var upprunalega kaupverðið sautján milljónir dollara þegar eignin fór á sölu, eða rúmlega 1,7 milljarður króna.

Dúðuð J.Lo.Vísir / Getty
Það er því í nægu að snúast hjá þessari hæfileikaríku konu um þessar mundir þar sem hún leikur veigamikið hlutverk í sjónvarpsþáttunum Shades of Blue og gaf nýverið út plötuna Por Primera Vez, þar sem hún syngur eingöngu á spænsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×